140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýr svör. Ég hlýt að spyrja: Hvað liggur að baki? Hvers vegna er hæstv. fjármálaráðherra að tefja þetta? Það er auðvitað margt sem ég gæti rætt í tengslum við þessi mál í stuttu andsvari en við erum alveg á þeim stað að við viljum fá svar við þeirri spurningu. Hvað liggur hér að baki? Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er búinn að lýsa því mjög skýrt hvað eftir annað í ræðunni að hæstv. fjármálaráðherra, fjármálaráðuneytið, er að tefja þetta sem aftur gerir það að verkum að þingið getur ekki tekið efnislega afstöðu sem væri að mati hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, og fyrir því hefur hann fært rök, mun æskilegra, málefnalegra og skynsamlegra að gera. Ég spyr einfaldlega: Af hverju? Hvað liggur hér að baki? Þetta er ekkert smámál eins og hæstv. ráðherra veit.