140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók þátt í því í fjárlaganefnd að fjalla um málefni Fjármálaeftirlitsins og hlýða á skýringar fulltrúa þess á nefndarfundi. Ég átta mig á því hvað Fjármálaeftirlitið er að hugsa í meginatriðum og ég held að enginn ágreiningur sé um að það var ein af niðurstöðunum úr rannsóknarskýrslunni að eftirlitsstofnanir, og Fjármálaeftirlitið þar með, væru allt of veikar og styrkja þyrfti þær. Það hefur sannarlega verið gert.

Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann líti svo á að það þýði að Fjármálaeftirlitið þurfi ekki að lúta almennum aðhaldskröfum sem gerðar eru til ríkisstofnana og hvort hægt sé að leggja fyrir þingið nánast ófrávíkjanlegar tillögur sem þingið má ekki fjalla um. Ég spyr einnig hvort ráðherrann sé ósammála því sem kemur fram í skýringum meiri hluta fjárlaganefndar við aukninguna á Fjármálaeftirlitið, þ.e. að löggjafar- og fjárhagsstjórnarvaldið sé hjá Alþingi og eðlilegt sé að skoða og leggja mat á starfsemina, m.a. hvort þessar auknu fjárveitingar hafi skilað betri árangri.