140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:16]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að tillögur fái efnislega umræðu í þinginu. Hitt er annað mál að Fjármálaeftirlitið er ekki undanþegið almennri aðhaldskröfu. Í áætlun eftirlitsins er skýrt tekið fram að það taki á sig 3% aðhaldskröfu eins og allar aðrar stofnanir, en það er hins vegar að bæta við sig verkefnum. Það þarf að bæta við sig þeim verkefnum vegna þess að alþjóðlegir sérfræðingar hafa sagt að það sé bráðnauðsynlegt og líka vegna þess að við höfum falið því ný verkefni. Þegar færð eru fram efnisleg rök af þeim toga sé ég alla vega ekki rök fyrir því að samþykkja þau ekki í ljósi rannsóknarskýrslu Alþingis og þess hve öflugt fjármálaeftirlit er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur öll. Fjárstjórnarvaldið er auðvitað hjá Alþingi. En ég get ekki staðið að samþykkt sem skerðir fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins ef það felur í sér að það geti ekki sinnt þeim verkefnum sem það telur brýnt að sinna, og alþjóðlegir sérfræðingar segja brýnt að það sinni. Ég sem efnahags- og viðskiptaráðherra hlýt að standa með eftirlitinu í því mati.