140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og ég get tekið undir margt sem kom fram í máli hans, sérstaklega hvernig staðið er að niðurskurði í heilbrigðismálunum. Það er eins og ekki hafi margir lært af síðustu fjárlögum fyrir ári síðan þar sem farið var mjög harkalega gegn einstaka stofnunum og ég tek undir með hv. þingmanni varðandi þau samfélagslegu áhrif, m.a. óöryggi, sem það hefur haft á byggðarlögin og samfélögin.

Hv. þingmaður talaði um að hægt væri að skera niður víða og ég er algjörlega sammála honum um að það er enn mikið fitulag í fjárlögunum, það væri hægt að forgangsraða betur í þágu velferðar, sérstaklega hvað snýr að heilbrigðismálunum. Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt sem kemur fram í þeim breytingartillögum sem liggja fyrir við frumvarpið, að lagt er til að veita rúmlega 37 millj. kr. til að ráða þrjá nýja aðstoðarmenn í ráðuneytin. Ef ég man rétt, hv. þingmaður leiðréttir mig annars, voru það ein af aðalrökunum þegar hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir breytingum á Stjórnarráðinu, þ.e. að fækka ráðuneytunum, að framkvæmdarvaldið yrði að sýna frumkvæði og ábyrgð í að taka á sig skerðingar. Síðan er niðurstaðan sú að búið er að eyða tugum milljóna í að breyta húsnæði og eini sparnaðurinn sem verður hvað reksturinn varðar eru tvenn laun sem munar á ráðherrum og þingmönnum vegna þess að búið er að setja tvo aðstoðarmenn undir hvern ráðherra eftir breytingarnar — þeir hafa reyndar verið þar áður, held ég — og eyða tugum milljóna í að gera breytingar á húsnæði. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir það með mér að í raun sé lagt af stað í einhverjum orðaflaumi sem er svo innihaldslaus þegar á reynir.