140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þingmanni um að það er ekki gott eða einfalt fyrir hv. þingmenn sem ekki eiga sæti í hv. fjárlaganefnd að átta sig vel á öllum þeim tilfærslum sem þar eru gerðar. Hann nefndi sérstaklega að það væri mjög æskilegt að setja hlutina upp öðruvísi, með töflum, menn hefðu þá fjárlögin árið á undan til viðmiðunar, verðlagsbreytingar, launahækkanir vegna kjarasamninga og þar fram eftir götunum, og svo sýndu þær niðurstöðurnar fyrir 2012. Ég tek undir með hv. þingmanni um að það er eitthvað sem við þurfum að þróa og læra og eins hvernig við stillum umræðuna við fjárlagagerðina.

Það eru tveir liðir sem mig langar að spyrja hv. þingmann um. Ég ætla að upplýsa hann um að Samkeppniseftirlitið kom á fund hv. fjárlaganefndar, það fær reyndar á sig eðlilega aðhaldskröfu eins og aðrir. Nú er verið að rétta af Fjármálaeftirlitið, án þess að ég ætli að fjalla efnislega um það, en þau gögn sem Samkeppniseftirlitið lagði fyrir hv. fjárlaganefnd voru í þá veru að ég teldi skynsamlegra að bæta aðeins frekar við það en að skera það niður. Sérstaklega var vísað til umfangs Fjármálaeftirlitsins miðað við Samkeppniseftirlitið og tel ég tillögu hv. þingmanna um að skera þar niður nokkuð varhugaverða.

Síðan er eitt sem ég er reyndar algjörlega ósammála hv. þingmönnum um, það er tillaga um að skera burtu lið um ófyrirséð útgjöld. Það má vel vera að allt liggi fyrir núna, allir samningar og fleira, en eigi að síður hefur þessi liður að mínu mati verið notaður skynsamlega, a.m.k. við síðustu fjáraukalög og þar á undan, til dæmis hvað varðar eldgosið sem varð og þar fram eftir götunum. Ég tel mjög mikilvægt að við höfum þennan sveigjanleika inni í fjárlögunum til að reyna að hafa sem réttasta niðurstöðu þó að enginn vilji (Forseti hringir.) að þessir liðir verði nýttir. Ég tel þetta vera varhugaverða tillögu.