140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjárlög í 3. umr. Það ætti að segja okkur að búið sé að vinna mikið í fjárlögunum síðan þau komu fyrst fram og breyta eða alla vega ræða breytingar og gera þær hugsanlega og velta síðan fyrir sér tekjum sem undir þessum fjárlögum eiga að standa.

Eins og fram kom hér fyrr í dag liggur tekjuhlutinn, sem er efnahags- og viðskiptanefndar að fjalla um, ekki fyrir, þ.e. að óvissa er um niðurstöðutöluna þar, ýmislegt sem gerir það að verkum, kolefnisskattur, fjársýsluskattur og ýmislegt annað sem eftir er að fara í gegnum. Vegna þessa hljótum við að gera athugasemdir við að fjárlagafrumvarpið sé rætt án þess að þetta liggi fyrir. Þó svo að það hafi vissulega gerst áður að ekki sé búið að afgreiða tekjuáætlunina held ég að það sé sjaldgæft að niðurstöðutalan liggi ekki í rauninni fyrir. Þetta ber að gagnrýna.

Hitt er að þær tillögur sem eru í fjárlagafrumvarpinu eru vitanlega mjög margar og viðamiklar og hægt er að hafa ýmsar skoðanir á þeim. Ég hefði kosið að sjá meiri breytingar gerðar á milli umræðna en gerðar hafa verið, en því miður er það niðurstaða meiri hluta Vinstri grænna og Samfylkingar að gera ekki frekari breytingar en kynntar eru í þeim tillögum sem liggja fyrir. Hins vegar liggja frammi fjölmargar aðrar breytingartillögur frá minni hlutanum þar sem er tekið á svipuðum málum en á mismunandi hátt.

Það sem hefur verið svolítið talað um eru breytt vinnubrögð varðandi safnliði og annað. Ég held samt að á lokasprettinum hafi eitthvað skolast til því að mér sýnist að búið sé að bæta í ýmsa hluti, svo sem fornleifarannsóknir. Skriðuklaustur er til dæmis tekið út fyrir sviga og vil ég taka fram að ég hef ekkert á móti því að það stórkostlega verkefni haldi áfram. En ég sakna þess að sjá ekki fjármuni í ýmsum öðrum verkefnum sem unnið hefur verið að í alllangan tíma og skapað mikla atvinnu, mörg störf, bein og óbein. Ég vil þar nefna sérstaklega fornleifarannsóknir á Hólum, svokallaða Hólarannsókn, svo eitthvað sé nefnt. Einnig vil ég nefna að ég hefði viljað sjá hærri tölur til Snorrastofu þar sem unnin eru mjög merkileg fræðistörf sem hafa kannski ekki, þegar hingað er komið í þetta hús, notið nægilegrar athygli.

Annað sem ég vil nefna er að það er vitanlega mjög gagnrýnivert að ekki hafi verið gerð úttekt á frumvarpinu, þ.e. áhrifum þess á byggðirnar. Þó að niðurskurðurinn nái einnig til stofnana á höfuðborgarsvæðinu er það bara þannig, og það er einfaldlega staðreynd, að hvert starf sem skorið er niður á Hólmavík eða einhvers staðar annars staðar skiptir hlutfallslega svo gríðarlega miklu máli á þessum fámennu stöðum, svo ég tali nú ekki um þá þjónustu sem verið er að veita.

Fjárlögin bera ekki þess merki, verð ég að segja, frú forseti, að sú ríkisstjórn er hér situr geti kennt sig við norræna velferð og staðið keik á eftir. Hér er ekki um velferðarstjórn að ræða sem ræðst svo harkalega að undirstöðu velferðarinnar, heilbrigðisstofnunum, elli- og örorkulífeyrisþegum og öðru slíku. Þetta er ekki í lagi. Það er hins vegar kannski fullseint að standa hér og æsa sig yfir því, því að við erum komin í 3. umr. og líklega verður litlu breytt héðan af en það er þó í það minnsta hægt að höfða til samvisku þeirra sem þurfa að greiða atkvæði í atkvæðagreiðslu á morgun um hvernig þeir taka á þeim breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram.

Vissulega er það þannig að stjórnvöld á hverjum tíma setja sér ákveðin markmið og svo virðist sem þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér varðandi það að ná tökum á ríkisfjármálunum séu í fyrsta lagi of brött, þ.e. of stuttur tími sé gefinn í að ná endum saman, og í öðru lagi finnst mér vanta tekjuhliðina, þ.e. framtíðarsýnina, hvernig á að afla tekna í að reka þó það sem eftir er. Ástæðan fyrir harkalegum niðurskurði er vitanlega líka sú að þegar tekjurnar eru ekki til staðar þarf að bregðast við með þessum hætti (BJJ: Rétt.) og það er að sjálfsögðu stóra málið, að tekjur verða að vera til staðar til að reka samfélag okkar. (BJJ: Þetta skilja ekki allir.) Þetta skilja ekki allir, hv. þingmaður, það er rétt, en það er okkar verk einnig að reyna að koma þeim skilningi á framfæri þó að illa gangi með þá ríkisstjórn er nú situr.

Ég vil í þessu sambandi, áður en ég fer í það aðalmál sem ég ætla að tala um, nefna að í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. bókinni stóru sem við fengum, á bls. 446 er rætt um aðrar óbeinar skuldbindingar ríkissjóðs.

Með leyfi forseta langar mig að lesa upp örlítinn kafla varðandi þessar óbeinu skuldbindingar:

„Helstu samstarfsverkefnin eru bygging og rekstur tónlistarhússins Hörpu, vegaframkvæmdir svo sem Vaðlaheiðargöng og bygging nýs landspítala.“

Ég staldra aðeins við þetta. Þarna má velta því fyrir sér í ljósi þeirrar umræðu og þeirrar andstöðu sem virðist vera við til dæmis byggingu nýs landspítala, hvort taka þurfi aðeins á því verkefni, þ.e. meta hvort rétt sé að staldra við, en verkefnið er vissulega á fullri ferð.

Síðan stendur, með leyfi forseta:

„Ýmsar óbeinar skuldbindingar ríkissjóðs má flokka sem ólögbundnar áhættuskuldbindingar. Slíkar skuldbindingar eru ekki lagalega bindandi og falla aðeins til ef ákveðin skilyrði myndast þar sem talið er þjóðhagslega mikilvægt fyrir ríkissjóð að leggja fram fjármagn til að tryggja hagsmuni þjóðarbúsins. Dæmi um slíkar ólögbundnar áhættuskuldbindingar er sú lagalega óvissa sem stafar af meðferð Icesave-málsins hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og sá möguleiki að málið endi fyrir EFTA-dómstólnum.

Rétt þykir að halda því til haga að Icesave-málið svokallaða kann að hafa veruleg áhrif á stöðu ríkissjóðs þegar lyktir þess liggja endanlega fyrir. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 13/2011, um heimild fjármálaráðherra til að staðfesta Icesave-samninga við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi felur í sér að meiri óvissa ríkir um áhrif Icesave-deilunnar á stöðu og horfur í ríkisfjármálum en ella hefði orðið.“

Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst þessi kafli — þetta eru tvær og hálf blaðsíða — algjörlega út í hött og úr takti við allt það, ég vil bara leyfa mér að fullyrða það, sem er núna uppi á borðinu í samfélaginu og þær skoðanir varðandi þetta málefni. Vegna þess að við flest lítum þannig á þetta mál, en greinilega ekki hæstv. fjármálaráðherra, að okkur beri ekki að greiða þær skuldir. Því er þetta sett undir aðrar óbeinar skuldbindingar ríkissjóðs. Þarna finnst mér hæstv. fjármálaráðherra vera enn og aftur óbeint að gefa það í skyn að okkur beri að greiða umræddar skuldir. Ég mótmæli þessu, frú forseti, og það er fyrirkvíðanlegt ef hæstv. fjármálaráðherra ætlar að draga til sín verkefni efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og þar með Icesave-málið. Það er fyrirkvíðanlegt vegna þess, frú forseti, að sá er hér stendur treystir einfaldlega ekki fjármálaráðherra til að fara með það verkefni miðað við þá forsögu sem hann hefur í því ólukkansmáli.

Þá að einu máli sem hefur verið töluvert rætt og þar ætla ég að koma á framfæri ákveðnum leiðréttingum, og það er varðandi tillögu um heiðurslaun listamanna. Það er ákveðinn fjöldi sem þiggur slík laun. Árin 2010 og 2011 var ákveðið að bæta ekki inn á þann lista — það eru tvö slot, ef má orða það þannig, eða tvö sæti laus — út af því efnahagsástandi sem hér er. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að bæta einu nafni á þann lista og það er einfaldlega ákvörðun meiri hlutans og allt í lagi með það, það er sá réttur sem meiri hlutinn hefur, það væri samt betra ef um það væri sátt.

Ástæðan fyrir því að framsóknarmenn tóku ekki þátt í að samþykkja það að bæta á listann er einfaldlega sú að okkar mat er að það eigi að staldra lengur við og hafa þessi sæti auð áfram. Það hefur lítið og í raun ekki neitt gerst í efnahagsmálum okkar sem réttlætir það að fara þessa leið, ef það var ástæðan fyrir því að fresta þessu á sínum tíma. Það kann hins vegar vel að vera að eftir nokkur ár sé hægt að fjölga þeim er þiggja þessi laun eða hvernig sem það er, ég ætla ekki að hafa skoðun á því á þessari stundu. Ég verð þó að viðurkenna að ég hef ekki alltaf skilið þennan lista og vinnubrögðin í kringum hann, en það er annað mál. Ástæðan fyrir ákvörðun okkar er fyrst og fremst sú að við töldum ekki rétt að gera þetta núna, síst meðan skorið er niður í grundvallarþjónustu og starfsemi stofnana ríkisins víða um land.

Ég vil einnig nefna, frú forseti, að við höfum verið í tvö ár með átakið Allir vinna. Ég held að það hefði verið mjög snjallt að framlengja það einu sinni enn. Það hefur skapað verkefni og þetta er mjög gott framtak og ég vil hæla ríkisstjórninni fyrir að hafa komið því á legg, en ég vil líka jafnframt hvetja hana til þess að framlengja þetta verkefni því að það hefur reynst mörgum vel, skapað ýmis verkefni og vinnu. Og það er nákvæmlega það sem við þurfum að gera.

Síðan vil ég vekja athygli á frumvarpi sem nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram um breytingu á lögum um stimpilgjald. Það snýr að því að framlengja í rauninni frest sem var gefinn, þ.e. undanþágu frá greiðslu stimpilgjalds þegar skilmálum fasteignaveðskuldabréfs er breytt. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt vegna þeirra breytinga sem er verið að vinna að, m.a. varðandi Íbúðalánasjóð, vegna þess að það mál er ekki klárt enn þá. Þess vegna held ég að skynsamlegt sé að framlengja þetta til að spara í rauninni kostnað eða gjöld sem fólk þarf að greiða þegar staðið er í þessu.

Þá er komið að því, frú forseti, sem mig langar helst að ræða og þó að ég nýti ekki allan ræðutíma minn vil ég koma því á framfæri. Það er mjög harkalegt þegar vegið er að grunnstoðum samfélagsins og velferðarkerfisins í gegnum fjárlögin án þess að um það hafi farið fram einhvers konar samráð eða samtal hvernig slík þjónusta eigi að vera í framtíðinni. Ég vil velta því upp, frú forseti, í ljósi þess að álit hefur komið frá lögmanni, kom á síðasta ári, um að óheimilt kynni að vera að breyta þjónustunni í gegnum fjárlögin eins og verið er að gera. Því velti ég fyrir mér hvort þeim stjórnendum heilbrigðisstofnana, sem munu fá skilaboðin frá velferðarráðuneytinu, sé í raun heimilt að fara eftir fjárlögunum, þ.e. ef fjárlögin brjóta þau lög sem þarna er vísað til þá geti þeir stjórnendur setið í súpunni. Því vil ég gera það sem er kannski óvanalegt, hvetja þá sem eiga að taka við þessum niðurskurðartillögum til að hugsa sig vandlega um hvort þeim beri að fara eftir þeim í raun og veru.

Í Ríkisútvarpinu var frétt áðan um áhrif niðurskurðarins á Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki. Vil ég taka fram að sú stofnun er ein af mörgum stofnunum sem verða fyrir niðurskurði, þannig að margt af því sem ég segi mun eiga við margar aðrar stofnanir. Þar kemur fram að þjónusta á endurhæfingardeild sjúkrahússins, þar sem koma um 100 manns á dag, mun skerðast verulega og þar á meðal lokast sundlaug og ýmislegt annað deildinni tengt. Með þessu er eingöngu verið að færa vandamálin, færa kostnaðinn annað. Fullyrða má og fullvíst má telja að það sé dýrari leið í stað þess að þjónusta íbúana þar, þar sem öll aðstaða er til staðar og hefur verið byggð upp af miklum myndarskap. Við hljótum því að velta fyrir okkur hvort verið sé að standa við þá samstarfsyfirlýsingu sem þessir flokkar skrifuðu undir og kemur fram í ályktun frá sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar, eins og lesið var upp hér fyrr í kvöld. Mér sýnist að verið sé hreinlega að fara á svig við það eins og margt annað. Það er mjög óvenjulegt að fá jafnharða ályktun og kom hér en þær hafa þó komið fleiri og undirskriftirnar margar eins og frá t.d. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnun Vesturlands.

Frú forseti. Á mbl.is í dag er viðtal við Guðmundu Wiium sem er talsmaður undirskriftasöfnunar vegna niðurskurðar hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands og víðar. Þar segir, með leyfi forseta, í viðtali við Guðmundu:

„Mér ofbýður að horfa upp á hversu illa Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) hefur farið út úr niðurskurðinum og hvað heilsugæslustöðvar fara almennt illa út úr þessu. Skoðun okkar sem stöndum að þessari síðu er að forgangsröðun stjórnvalda sé kolvitlaus.“

Þetta er sem sagt heimasíða þar sem hægt er að rita undir mótmæli við þessum niðurskurði og það er síðan egmotmaeli.is.

„Máttur hverrar þjóðar hlýtur að vera heilbrigðismál, löggæsla og menntamál.“ Þetta segir Guðmunda. Undir þetta hljótum við öll að geta tekið og því hljótum við að spyrja: Hvers vegna fer ríkisstjórn sem kennir sig við velferð fram með þessum hætti? Það er algjörlega óskiljanlegt.

Fyrir nokkru birtist grein í Morgunblaðinu eftir Guðrúnu Sighvatsdóttur á Sauðárkróki. Þessi grein er augljóslega rituð af miklum heilindum og lýsir Guðrún nákvæmlega þeirri stöðu sem hún var og er í varðandi þá stofnun sem þar er.

Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þá grein því að hún segir býsna margt. „Stopp nú stjórnvöld“ er yfirskrift greinarinnar:

„Árið 2000 var tekin í notkun endurbætt aðstaða við Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki (HS) til endurhæfingar m.a. glæsileg sundlaug sem fjármögnuð var að nokkru leyti af gjafafé frá félögum og einstaklingum auk framlaga frá ríki og Sveitarfélaginu Skagafirði.

Með þessari bættu aðstöðu jókst verulega þjónusta við íbúa Skagafjarðar og er undirrituð ein þeirra sem notið hafa góðs af þeirri þjónustu. Aðstaða þessi er nýtt af sjúklingum og vistmönnum á heilbrigðisstofnuninni, öryrkjum og fötluðum sem búa á svæðinu auk annarra hópa, svo sem vefjagigtar-, hjarta-, lungna- og offitusjúklingum sem sækja sér þjónustu oft í viku til að viðhalda starfsgetu sinni.

Nú liggja fyrir tillögur til fjárlaga fyrir árið 2012 og þar er HS gert að skera niður rekstrarkostnað um 8,4% líkt og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á meðan flestum öðrum heilbrigðisstofnunum ber að skera niður um 1,5–2%.

Undanfarin ár hafa heilbrigðisstofnanir um allt land þurft að taka á sig niðurskurð og hagræðingu en eins og fram kemur í nýrri skýrslu sem Capacent vann fyrir Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki þá er niðurskurðarkrafan langmest á HS og HÞ eða 34,1% frá 2008 á áætluðu verðlagi ársins 2012. Tilvitnun í skýrsluna: ,,Sýnt er fram á að niðurskurður hefur skipst misjafnlega eftir landsvæðum og í ljós kemur að Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki hefur verið látin bera meiri samdrátt í starfsemi en aðrar heilbrigðisstofnanir og önnur landsvæði. Ekki verður séð að forsendur stjórnvalda byggi á formlegri greiningu á aðstæðum í Skagafirði.“

Undanfarin ár hafa heilbrigðisstofnanir um allt land þurft að taka á sig niðurskurð og hagræðingu en eins og fram kemur í nýrri skýrslu sem Capacent vann fyrir Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki er niðurskurðarkrafan langmest á HS og HÞ eða 34,1% frá 2008 á áætluðu verðlagi ársins 2012. Tilvitnun í skýrsluna: „Sýnt er fram á að niðurskurður hefur skipst misjafnlega eftir landsvæðum og í ljós kemur að Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki hefur verið látin bera meiri samdrátt í starfsemi en aðrar heilbrigðisstofnanir og önnur landsvæði. Ekki verður séð að forsendur stjórnvalda byggist á formlegri greiningu á aðstæðum í Skagafirði.“

Ljóst er að ef fjárlög verða samþykkt óbreytt og tillögur þessar ganga eftir þá mun endurhæfingunni hjá HS verða lokað og starfseminni hætt.

Ef svo ólíklega myndi vilja til að Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra læsi þessa grein þá vil ég að það komi fram að ég geri mér grein fyrir því að hér varð hrun, en ráðherra á það til að svara mönnum, ef þessi mál eru rædd, með þeirri spurningu hvort menn viti ekki að hér hafi orðið hrun.

Ég hef ekki fengið niðurfelldar skuldir en húsnæðislán mín hafa hækkað.

Ég er vinnufær (þökk sé endurhæfingarmeðferð hjá HS) og borga þar með mína skatta.

Með skerðingu á þjónustu í minni heimabyggð hefur fasteign mín rýrnað að verðgildi. Ég tel að ég hafi með þessu tekið á mig minn hlut í hruninu og óska eftir því við stjórnvöld, sem ráðstafa mínum skattpeningum, að mín heilbrigðisstofnun verði ekki látin taka á sig meiri niðurskurð en aðrar og einhverrar sanngirni verði gætt.“

Þessa grein skrifar Guðrún Sighvatsdóttir, félagi í Hollvinasamtökum Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki.

Frú forseti. Þetta er hugur, vil ég leyfa mér að segja, nánast allra, ef ekki allra þeirra sem nýta þjónustu þeirra stofnana úti á landi og í rauninni alls staðar þar sem verið er að skera niður hjá heilbrigðisstofnunum, þá eru þetta sjónarmiðin. Það er óásættanlegt að ekki skuli vera unnið eftir ítarlegri greiningu á því hver þörfin er á hverju svæði þegar farið er í vinnu sem þessa. Það er algjörlega óásættanlegt og óábyrgt.

Í viðtali við framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki kemur fram og segir í frétt af því, með leyfi forseta:

„Ljóst sé hins vegar að starfsemi endurhæfingarinnar verður skert verulega. Aðspurður segir Hafsteinn það þýða að sundlauginni verður lokað sem og að önnur starfsemi endurhæfingarinnar dregst verulega saman. Þá er reiknað með að komum farandsérfræðinga fækki verulega frá því sem verið hefur.“

Þetta er óþolandi, frú forseti, að þrátt fyrir að margoft sé búið að draga upp þá mynd fyrir meirihlutaflokkunum, fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, er samt áfram hoggið í velferðarþjónustuna. Verið er að skera niður grunnþjónustu á þessum stofnunum, þjónustu sem dregur til sín fólk, þ.e. þjónustu sem fólk horfir á þegar það setur sig niður með fjölskyldur sínar. Ef það er virkilega þannig að stefna eigi allri þessari heilbrigðisþjónustu, nema hugsanlega litlum umönnunarstofnunum, á tvo, þrjá eða einn, tvo staði á landinu, þá finnst mér í það minnsta að stjórnvöld eigi að koma hreint fram og segja að það sé þannig.

Það er líka algjörlega óþolandi að vera með þá umræðu hangandi yfir allri þessari vegferð, umræðu sem maður heyrir þegar maður fer um landið að verið sé að skera niður á landsbyggðinni til þess að fjármagna nýjan Landspítala og þá starfsemi sem þar er, það sé verið að teikna það þar inn. Ef svo er, erum við að sjálfsögðu, í það minnsta þingmenn landsbyggðarinnar, á móti þeirri framkvæmd.

Við hljótum hins vegar að þurfa að spyrja okkur, eins og ég velti upp áðan: Geta stjórnvöld breytt grundvallarþjónustu landsmanna í gegnum fjárlögin með því að spara, draga saman og skera niður? Ég segi nei, það er ekki hægt. Það hlýtur að þurfa að fara fram einhver fagleg vinna.

Hér hafa sumir sagt að þessi mál hafi verið löguð milli umræðna. Það má alveg færa rök fyrir því að þau hafi verið löguð. En hvað hefur verið gert við sumar stofnanir? Þeim hefur verið gert að nota uppsafnaðan höfuðstól, sem nýta átti til að bregðast við hallarekstri og einhverju slíku, í að mæta niðurskurði. Það gerir það að verkum að margar stofnanir í dag sjá fram á að hallinn sem er á því ári sem er að ljúka núna er mjög líklegur til að vera það áfram á næsta ári miðað við óbreyttan rekstur, hann mun vera til staðar áfram og bætast þá við þann niðurskurð sem þeim stofnunum er gert að taka á sig. Þó að það standi þannig, t.d. með Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki, að þar sé niðurskurðarkrafan um 17 milljónir, þá er hún miklu meiri. Hún er í raun rúmar 50 milljónir vegna þess að hallinn á árinu er mjög líklega í kringum 40 milljónir.

Hvernig á að bregðast við þessu? Ef fylgja á eftir þeirri vísan sem er í fjárlagafrumvarpinu þarf að skera niður. Þess vegna segi ég, og einhverjum kann að þykja það óábyrgt, en ég segi þetta vegna þess að ég efast um að löglegt sé að gera þetta með þessum hætti. Því segi ég við þá sem stýra þessum stofnunum: Slakið þið á. Það getur ekki verið að núverandi ríkisstjórn ætli sér að sitja að eilífu.

Frú forseti. Ég ætla að segja skilið við þessa umræðu með þeim orðum að sú ríkisstjórn sem nú situr er einhver sú alversta ríkisstjórn sem Íslendingar hafa fengið yfir sig og hún er einfaldlega að ganga að grunnþjónustunni dauðri.