140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í dag nefndi ég úr þessum ræðustól þær yfirlýsingar sem forustumenn Alþýðusambands Íslands hafa gefið vegna þeirra forsendna sem liggja undir kjarasamningunum. Ég sá ástæðu til að vekja athygli þingheims á því hversu alvarlegt það væri þegar forseti ASÍ lýsir því yfir og spyr hvort ríkisstjórnin ætli sér virkilega að þvinga Alþýðusambandið til þess að segja upp kjarasamningum.

Engum dylst hversu alvarlegt það er ef kjarasamningar halda ekki. Nú ætla ég ekki að gerast neinn dómari hvað varðar þá spurningu hvort forseti ASÍ hefur rétt fyrir sér eða ekki. Ég hef ekki skoðað það mál og ég geri reyndar, frú forseti, athugasemdir við að fundur skuli hafa verið haldinn með forustumönnum ASÍ og formanni og varaformanni fjárlaganefndar á föstudaginn var og þess fundar hafi í engu verið getið á fundi fjárlaganefndar á laugardegi, og var þó nægur tími gefinn til slíks á þeim fundi, því að svo sannarlega hefðum við þurft að ræða þessar yfirlýsingar og þessar áhyggjur Alþýðusambandsins í nefndinni.

Ég minni á að í þeirri þjóðhagsspá sem lögð er til grundvallar því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum nú er sérstaklega kveðið á um, strax í upphafi skjalsins sem Hagstofan gaf út, á bls. 2, að reiknað væri með því og það nánast gefið að forsendur kjarasamninga mundu halda.

Frú forseti. Það skiptir máli þegar forseti Alþýðusambandsins spyr hvort ríkisstjórnin ætli sér að þvinga Alþýðusambandið til þess að segja upp kjarasamningum. Vandinn er sá að þegar forseti Alþýðusambandsins lýsir þessu yfir eykur það óvissu í íslensku efnahagslífi og óvissu þeirra sem hyggjast festa fé sitt í atvinnurekstri hér. Nú verða menn að velta fyrir sér í fullri alvöru hvort kjarasamningar, sem gerðir voru í sumar og voru allmyndarlegir, haldi og verða þeir þá fyrst og fremst að horfa til yfirlýsinga forustumanna Alþýðusambandsins. Minna máli skiptir hvað hæstv. fjármálaráðherra segir um málið, það er miklu heldur Alþýðusambandsins að lýsa því yfir hvort samningarnir haldi eða ekki. Það er þess vegna, frú forseti, aldeilis furðulegt að við skulum ekki hafa fengið þetta mál fyrr í nefnd, að við skulum ekki hafa rætt það í fjárlaganefnd. Í raun og veru hlýtur það að vera furðulegt að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki hafa tekið á þessu máli miklu fyrr, að til þess skuli hafa komið að forusta Alþýðusambandsins hafi séð sig knúna til að gefa slíkar yfirlýsingar. Að sjálfsögðu hefði fyrir löngu átt að vera búið að setjast niður með Alþýðusambandinu og ræða þessi mál þannig að ekki kæmi til slíkra yfirlýsinga. Yfirlýsingin ein og sér eykur óvissuna.

Það er reyndar áhugavert að rýna aðeins í þau orð sem forseti Alþýðusambandsins lét falla, hvað það var sem forsetinn hefur áhyggjur af. Eitt af því snýr að lífeyrissjóðunum hér og stöðu þeirra. Við sjálfstæðismenn höfum margsinnis gagnrýnt það og gert athugasemdir í fjárlaganefnd við að gert er ráð fyrir því að 1.400 milljónir komi í ríkiskassann samkvæmt samkomulagi ríkisins annars vegar og lífeyrissjóðanna hins vegar. Við höfum ítrekað kallað eftir því og spurt hvort slíkt samkomulag liggi fyrir. Því hefur verið svarað sannleikanum samkvæmt að svo sé ekki. Við höfum gert athugasemd við það í fjárlaganefnd að gert skuli ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að slíkt samkomulag verði gert og að þær 1.400 milljónir sem þar er kveðið á um muni skila sér í ríkissjóð.

Ég bið hv. þingmenn, frú forseti, að velta fyrir sér ef slíkt samkomulag næst ekki hvernig verði þá haldið á málum af hálfu ríkisins. Verður það þá þannig að ríkisstjórnin kemur til þings og leggur til að lagður verði sérstakur skattur á lífeyrissjóðina til að ná þessum 1.400 milljónum, með öðrum orðum að við skattleggjum lífeyrissjóðina? Er það svo? Engin svör hafa verið gefin um það til hvaða ráða hæstv. ríkisstjórn ætlar að grípa ef slíkt samkomulag næst ekki. Hér er ekki um að ræða neina smápeninga, 1.400 milljónir. Munar nú um minna í ríkisreikningnum.

Forseti Alþýðusambandsins gerði það líka að umtalsefni að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við þau fyrirheit og þær yfirlýsingar sem voru gefnar í aðdraganda kjarasamninga í sumar. Enn og aftur, og ég hef gert það áður að umtalsefni úr þessum ræðustól, voru forsendur kjarasamninganna, forsendur þess að samið var um býsna miklar launahækkanir miðað við stöðu mála, þær að fjárfestingar í íslensku atvinnulífi færu aftur upp. Það var forsenda þess að kjarasamningarnir voru gerðir með þeim hætti sem þeir voru gerðir.

Það verður að segjast eins og er, og ég held að það sé sama hvernig á það er litið, að það er ekki hægt að komast að neinni annarri niðurstöðu en þeirri sömu og forseti Alþýðusambandsins komst að sem var sú að ríkisstjórnin hefur ekki staðið sína plikt hvað þetta varðar. Það þarf stórátak í fjárfestingum á Íslandi, atvinnuvegafjárfestingum, til að efnahagslífið komist aftur af stað, til þess að ríkissjóður auki tekjur sínar og geti þar með staðið við þau loforð sem gefin hafa verið til dæmis eldri borgurum og öryrkjum hvað varðar bætur þeirra.

Stóra málið er að um leið og við náum fjárfestingunni upp hækkar atvinnustigið. Það er lykilatriði. Ég get ekki varist því að það veldur mér áhyggjum hversu hægt okkur gengur að minnka atvinnuleysið. Það er vont fyrir ríkissjóð, það er vont fyrir atvinnulífið sjálft, það er vont fyrir heimilin en það er hörmulegt, frú forseti, fyrir þá einstaklinga sem mega þola þetta atvinnuleysi, sem mega þola það mánuðum, missirum og árum saman að hafa enga atvinnu. Enginn nema sá sem í slíku lendir getur gert sér það í hugarlund hvaða skelfing það er að hafa enga vinnu, geta ekki séð sjálfum sér og sínum farborða. Það eru ömurlegar aðstæður, frú forseti, og það hvílir mikil ábyrgð á okkur þingmönnum og það hvílir mikil ábyrgð á ríkisstjórn landsins að leysa þetta mál, þ.e. gera allt það sem í okkar í valdi stendur, löggjafans og framkvæmdarvaldsins, til að örva efnahagslífið svo að margfræg hjól atvinnulífsins fái aftur snúist. Það gerist ekki nema við gerum það sem við eigum að gera. Við verðum að skapa stöðugleika og traust í samfélaginu. Eitt af því eru forsendur kjarasamninga, annað er að menn geti gengið að því sem vísu að ekki sé verið að hringla með skattkerfið, ekki sé verið að breyta leikreglum og að ríkissjóður sé rekinn með skynsamlegum og ábyrgum hætti þannig að hann sogi ekki til sín vegna hallarekstrar allt laust fjármagn í landinu. Þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli.

Áfram með atvinnuleysið, ég ætla að fá að ræða það aðeins nánar, frú forseti. Til okkar í fjárlaganefnd komu fulltrúar sveitarfélaganna og ræddu við okkur alveg sérstaklega á næstsíðasta fundi nefndarinnar, áður en málið var tekið út, þann vanda sem sveitarfélögin standa frammi fyrir vegna þeirrar ákvörðunar ríkisvaldsins að á árinu 2012 skuli þannig farið með atvinnuleysisbætur að á því fjögurra ára tímabili sem fólk hefur til að vera á bótum muni þrír mánuðir af því tímabili lenda á sveitarfélögunum.

Nú er umhugsunarefni hvers vegna slíku fyrirkomulagi er komið á, hvers vegna við förum frá því fyrirkomulagi að atvinnuleysisbæturnar séu óbrotið tímabil í fjögur eða fimm ár og yfir í það að brjóta þær upp með þeim hætti sem virðist eiga að gera núna, þ.e. að sá einstaklingur sem ekki hefur vinnu geti verið á bótum í þrjú ár frá ríkinu, síðan taki við þriggja mánaða tímabil þar sem sveitarfélögin taka við og svo aftur níu mánuðir sem verða borgaðir af ríkinu og atvinnuleysisbótunum þaðan. Mig hefur algjörlega skort rökstuðning fyrir þessu fyrirkomulagi að brjóta atvinnuleysisbótatímabilið upp með þessum hætti. Í fyrsta lagi, og á það bentu forsvarsmenn sveitarfélaganna, hafa sveitarfélögunum ekki verið tryggðir nægir tekjustofnar til að taka á móti þessum hópi fólks. Þarf nú ekki að fjölyrða um fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna. Hitt er auðvitað sérkennilegt og veldur miklum áhyggjum, að það er verið að búa til þriggja mánaða tímabil þar sem atvinnulaust fólk fer á framfæri sveitarfélaganna og um leið úr þeim og frá þeim vinnumarkaðsúrræðum sem þó eru til staðar í gegnum Vinnumálastofnun.

Hvernig í ósköpunum stendur á þessu fyrirkomulagi? Ég óttast að það sem fyrir ríkisvaldinu vaki sé að ýta fólki til sveitarfélaganna með þessum hætti og gera síðan kröfu á sveitarfélögin um að búin verði til atvinna fyrir þá sem til þeirra koma. Við erum að tala um mjög stóran hóp fólks. Ef ekki verður búin til atvinna fara þeir einstaklingar sem voru áður á atvinnuleysisbótum á bætur frá sveitarfélögunum og er þá rétt að hafa það í huga að í fyrsta lagi eru þær bætur lægri en atvinnuleysisbætur og í öðru lagi eiga ekki allir þeir sem eru á atvinnuleysisbótum rétt á bótum frá sveitarfélögum. Það mun með öðrum orðum fara fram mat af hálfu sveitarfélaganna á hverjum og einum, hvort viðkomandi eigi slíkan rétt. Samkvæmt því sem forustumenn sveitarfélaganna sögðu okkur eiga þeir von á fleiri þúsund manns sem munu koma af bótarétti hjá ríkinu og yfir á bótarétt hjá sveitarfélögunum. Ég velti fyrir mér, frú forseti, hversu hratt sveitarfélögunum muni ganga, sérstaklega þeim sem eru á höfuðborgarsvæðinu, að fá mat á alla þessa einstaklinga, hvort þeir hafi bótarétt eða ekki. Þar skipta til dæmis máli tekjur maka, eignastaða o.s.frv. Ég óttast að fyrir marga verði það þannig að það verði rétt búið að meta þetta þegar fólk er aftur komið á atvinnuleysisbætur.

Við skulum muna hvað varðar stöðu sveitarfélaganna og atvinnumála að það eru ekki sveitarfélögin sem bera ábyrgð á því að í sjávarútveginum er ekki verið að fjárfesta eins og ætti að vera að gera en er ekki vegna þess að óvissa um framtíð hans er uppi, það eru ekki sveitarfélögin sem hafa dregið lappirnar í orkunýtingu, það eru ekki sveitarfélögin sem hafa dregið lappirnar hvað varðar samstarf við erlenda fjárfesta í orkufrekum iðnaði. Það er núverandi ríkisstjórn sem ber ábyrgð á því.

Ég vil líka segja hvað varðar atvinnuástandið að það er alveg gríðarlega mikilvægt að við gætum okkar á því þegar kemur að því að byggja hér upp efnahagslífið að þrátt fyrir að atvinnuleysi sé okkur mjög þungbært megum við samt ekki missa sjónar á því að við lausn atvinnuleysis verður alltaf fyrst og síðast að horfa til þess að það verði ekki bara til störf heldur hagkvæm störf, störf sem skila arði. Í sjálfu sér væri hægt að draga mjög hratt úr atvinnuleysinu ef menn hefðu ekki það viðmið.

Ég hef lýst því áður úr þessum ræðustól að mér finnst til dæmis hugmyndir manna um strandveiðar bera keim af því að fjölga störfum á mjög óarðbæran hátt. Það er nefnilega ekki fjöldi starfanna sem að lokum gerir þjóðir ríkar heldur verðmætin sem verða til, verðmætin sem eru sköpuð. Þetta er lykilatriði þess að ríkissjóður Íslands sé rekinn í góðu jafnvægi og tryggt sé að sem mestir fjármunir verði til fyrir atvinnulífið til að fjárfesta. Peningar sem við tökum frá lífeyrissjóðunum að láni eða frá skattgreiðendum í formi skatta eða í gegnum aðra lánastarfsemi ríkisins, í útgáfu ríkisskuldabréfa, nýtast ekki fyrir atvinnuuppbyggingu.

Það er því nauðsynlegt að hafa í huga að öll sú umræða sem hér hefur farið fram um stöðu ríkissjóðs og ríkisfjármála snýr að lokum að þessu: Hvernig tekst okkur að byggja aftur upp atvinnulífið og hvernig atvinnulíf tekst okkur að byggja upp? Það er lykilatriði. Það er tilgangurinn sem við horfum til. Ríkissjóður sem er í jafnvægi, ríkissjóður sem nýtur góðs lánstrausts er um leið grundvallarforsenda fyrir atvinnulíf í landinu. Við eigum enn eftir býsna langan veg, okkur hefur ekki tekist að koma þeim böndum á hallann sem við svo sárlega þurfum að gera.

Ég hef áður varað við því að menn horfi blint á hagvaxtartölurnar sem nú liggja fyrir. Sú hagvaxtarspá sem við horfum til á næsta ári, sem um leið hefur að gera með það hvernig atvinnuleysið muni þróast, byggir mjög á því að einkaneyslan sé að vaxa. Ég leyfi mér að fullyrða að sá grunnur sem er undir hagvextinum á næsta ári er veikur, hann er veikur vegna þess að þessi einkaneysla er drifin áfram af úttekt á séreignarsparnaði, frystingu lána, niðurgreiðslu vaxta og háum kjarasamningum sem ég óttast að séu innstæðulausir. Þetta höfum við rætt hér áður en því miður horfum við til þess að með afgreiðslu fjárlaga, verði þessi fjárlög samþykkt, er mikil hætta á því að við náum ekki þeirri viðspyrnu á næsta ári sem er nauðsynleg til að auka fjárfestingu. Það er grunnurinn að heilbrigðum hagvexti sem síðan skilar sér í auknum tekjum ríkissjóðs og í auknum kaupmætti. Þetta er algjört lykilatriði, frú forseti.

Við sjálfstæðismenn lögðum fram mjög ítarlegar efnahagstillögur um það hvernig við gætum sem hraðast byggt upp fjárfestinguna í landinu. Út á það hefur allur okkar tillöguflutningur gengið í efnahagsmálum á þessu hausti, að auka fjárfestinguna, að auka tækifærin, að auka atvinnuna, að auka tekjurnar, að auka kaupmáttinn. Allt verður að snúast um þetta, allt starf hæstv. ríkisstjórnarinnar verður að snúast um þetta en því miður, þótt ég svo gjarnan vildi að þessi ríkisstjórn færi frá, frú forseti, verður að segjast eins og er gera þær ógöngur og þau vandræði sem ríkisstjórnin hefur ratað í undanfarnar vikur, sem svo augljós eru og svo margumrædd, það að verkum að hæstv. ráðherrar eyða allt of miklum tíma í að velta fyrir sér hvernig þeir eigi að lifa af daginn eða vikuna, hvernig í ósköpunum ríkisstjórnin eigi að lifa af fram til jólafrís. Ég held að það sé meðal annars skýringin á því hvers vegna í ósköpunum var ekki tekið af meiri festu og meiri myndugleika á þeim umkvörtunum sem Alþýðusamband Íslands hefur fært fram hvað varðar fjárlagafrumvarpið.

Það var ástæða til að ræða miklu fyrr við Alþýðusambandið og koma í veg fyrir yfirlýsingar Alþýðusambandsins um að forsendur kjarasamninga væru við það að bresta, að sagt væri að ríkisstjórnin vildi láta reyna á það hvort mönnum væri alvara með yfirlýsingum sínum eða ekki.

Þetta hefði aldrei átt að gerast svona, augljóslega ekki, og ég kenni því einu um að forustumenn ríkisstjórnarinnar og þeir sem þar um véla eru svo uppteknir af því að lifa af daginn. Þá er betra að horfast í augu við stöðuna. Ég tel að best væri að menn gerðu það og kölluðu til kosninga. Ég held að það væri skynsamlegast. Síðan væri hægt að mynda hér starfhæfa ríkisstjórn sem héngi ekki bara á einum hv. þingmanni. Við sjáum það í svo mörgu öðru en þessu fjárlagafrumvarpi hversu veik ríkisstjórnin er, við sjáum það í því hversu erfiðlega hefur gengið að koma ýmsum málum hér í gegn.

Nefni ég til dæmis umræðuna um fangelsið á Hólmsheiði. Ég er þeirrar skoðunar að það sé engan veginn ásættanlegt að fjárlaganefnd sé sett í þá stöðu að taka ákvörðun um hvort eigi að byggja svona eða hinsegin fangelsi, hvort það eigi að vera uppi á Hólmsheiði eða á Litla-Hrauni eða hvar það eigi að vera. Fjárlaganefnd hefur engar forsendur til þess. Hvers vegna er málið svona til hennar komið? Jú, vegna þess að óeining er í stjórnarliðinu þar sem hver og einn stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar hefur í raun og veru alræðisvald sem hefur leitt til þess að málsmeðferðin varð ekki betri en raun bar vitni. Allt í einu stendur fjárlaganefnd frammi fyrir slíkum spurningum, faglegum spurningum um fangelsismál. Þetta eru augljóslega ekki eðlileg vinnubrögð, frú forseti.

Nú undir lok ræðutíma míns vil ég fá að nota tækifærið og segja að þrátt fyrir að ýmislegt megi finna að fjárlagaferlinu sjálfu, þá er ég ekki að tala um niðurstöðu fjárlaga eða áhersluatriði eða forgangsröðun, vil ég ítreka að ég er sammála þeim sem hafa áður sagt það hér að innan fjárlaganefndarinnar er ágætur samstarfsvilji og ríkur vilji til að bæta eins og hægt er alla fjárlagagerðina. Það á að nýta þennan ríka samstarfsvilja — nýta en ekki misbjóða mönnum með því að bjóða upp á þá framkvæmd sem við urðum vitni að um helgina — til að bæta vinnuferlið við fjárlögin. Það er svo sannarlega svigrúm til þess. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur lýst hugmyndum sínum um breytta verkferla og breytt vinnulag í þinginu, í umræðum um fjárlagafrumvarpið, og ég styð þær hugmyndir heils hugar. Ég veit að margir hv. þingmenn gera það líka og hér er komið gott tækifæri fyrir formann fjárlaganefndar og nefndina alla til að sameinast um úrbætur á þessum þáttum, leggja þær fyrir þingið og fá þær samþykktar. Það er gott tækifæri til þess og ég lýsi mig í það minnsta fullkomlega reiðubúinn til góðs samstarfs þar um.

Frú forseti. Að lokum þakka ég formanni fjárlaganefndar og öðrum fjárlaganefndarmönnum fyrir þá vinnu sem unnin hefur verið í aðdraganda þess að við stöndum nú í 3. umr. um fjárlög.