140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt ef hv. þingmaður saknar þess svo mjög að ég skuli ekki finna mér tíma til þess að hrósa ríkisstjórninni. Um leið og ég verð ánægður með ríkisstjórnina mun ég hrósa henni. Ég er ekki þar með að segja að hún geri allt rangt, fyrr má nú aldeilis fyrr vera. Ýmislegt hefur hún gert sem segja má, ef þingmaðurinn er að kalla eftir einhvers konar hrósi, að sé ekki algjört klúður. En því miður er bara of mikið af slíku, ríkisstjórnin hefur of oft ekki verið nægilega skynsöm, nægilega stefnuföst. Það birtist í því að pólitískur óstöðugleiki á Íslandi, ekki bara samkvæmt mínu mati heldur líka alþjóðlegra stofnana sem meta slíkt og bera saman á milli landa, er gríðarlega mikill í alþjóðlegum samanburði. Hv. þingmaður getur skammað slíka alþjóðlega stofnun og sagt að hún finni ekkert nægilega gott um ríkisstjórnina að segja, en það bara niðurstaðan úr hinu alþjóðlega mati.

Hvað sveitarfélögin varðar vísa ég til þess fundar sem við í fjárlaganefnd áttum með fulltrúum sveitarfélaganna þar sem þeir fóru yfir verklag og aðdraganda þeirrar ákvörðunar að þrír mánuðir af fjögurra ára tímabili færu til sveitarfélaganna hvað varðar bætur til þeirra sem eru atvinnulausir. Þeir bentu á, og ég gat ekki séð annað en að það væri með réttu, að annars vegar hefðu þeir sem kæmu til þeirra ekki aðgang að vinnumarkaðsúrræðum sem þeir hefðu þegar þeir væru á bótum frá ríkinu, og að hins vegar fylgdu því ekki nægilegar fjárveitingar.

Ríkisstjórnin getur tekið ýmsar ákvarðanir um stöðu þeirra sem atvinnulausir (Forseti hringir.) eru. En þegar því er ýtt til sveitarfélaganna með þessum hætti verða auðvitað að fylgja tekjur.