140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég bind miklar vonir við það eins og þingmaðurinn að vinnubrögðin í fjárlagagerðinni verði bætt. Ég held að það hafi m.a. verið myndarlega gert í safnliðunum á þessu ári og vonast til að þessi aðferðafræði við rammana verði líka til þess að styrkja vinnubrögðin. Ég held að það skipti kannski mestu máli að fjárlaganefnd hefji undirbúning fjárlaga á vorþingi í ríkari mæli en verið hefur og umfjöllun í stórum dráttum en kannski ekki síður eftirfylgni með framkvæmd fjárlaganna. Þar hefur oft verið pottur brotinn og hægt að bæta úr mörgu.

Um hina mörkuðu tekjustofna er ég almennt sammála hv. þingmanni um að í flestum tilfellum fer best á því að tekjur renni í ríkissjóð hverju nafni sem þær nefnast og þeim sé síðan ráðstafað til útgjalda þaðan, enda er sú fróma ósk sem sett er fram með því að marka ákveðna tekjustofna alltaf þeim annmörkum háð að hér skiptir reglulega um pólitíska meiri hluta og tilhneigingin er því sú að sú mörkun sem einn meiri hluti hefur sett verði að engu hjá öðrum en skattheimtan haldi hins vegar áfram. Borgurunum þykir auðvitað ósanngjarnt og óréttlátt að vera rukkaðir um skatta sem eigi að renna til einhverra málefna sem þeir gera svo í rauninni ekki.

Ég held hins vegar varðandi Fjármálaeftirlitið, af því að hv. þingmaður nefndi það sérstaklega, að það geti verið rök fyrir því að stofnanir sem þykir gríðarlega mikilvægt að séu sjálfstæðar (Forseti hringir.) hafi sjálfstæða tekjustofna, einkum ef stjórnmálin hafa reynst haldlítil á (Forseti hringir.) viðkomandi sviði eins og hefur sýnt sig í aðhaldi þingsins með bankakerfinu.