140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri á honum að hann er sammála mér í sambandi við þessar mörkuðu tekjur og sértekjur þó að menn muni auðvitað, þegar og ef af þessu verður, sem ég vona að verði, skoða þær í heild sinni og tína kannski ekki allt til sem snýr að sértekjum og eru kannski pínulitlar upphæðir í miðasölu eða einhverju svoleiðis. Menn þurfa bara að fara yfir það í rólegheitunum.

Það er náttúrlega alveg hreint með ólíkindum þegar maður skoðar þetta að í fjárlögum 2010 eru til að mynda markaðar tekjur til einnar stofnunar upp á 2 milljarða og svo sýna lokafjárlög 2,4 milljarða, 420 milljónir umfram, svo samþykkir Alþingi það einu og hálfu ári eftir að búið er að eyða peningunum. Síðan kemur í ljós að umræddar sértekjur komu bara úr einu ráðuneyti. Þetta er náttúrlega nokkuð sem gengur ekki og er mjög óréttlátt gagnvart öðrum stofnunum.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann um það sem snýr að munaðarleysi tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins. Eins og hv. þingmaður veit jafn vel og ég hefur efnahags- og viðskiptanefnd, reyndar skattanefnd áður, gefið umsögn um tekjuhlið frumvarpsins. Ég hef sagt það áður hér í ræðustól að ég tel mjög mikilvægt að breyta þingsköpunum hvað varðar umsögnina því að þar kemur fram að fjárlaganefnd veiti í raun og veru efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um þingmál er varða tekjuhlið fjárlaga, sem væntanlega eru þá skattamál. Því spyr ég hv. þingmann hvort hann geti tekið undir þær skoðanir mínar að við þurfum að breyta þessu til fyrra horfs. Mér fannst fara vel á því eins og það var þegar efnahags- og skattanefnd gaf fjárlaganefnd umsögn um tekjuhliðina. Eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni er mjög mikilvægt að efla framkvæmd fjárlaga og að hún fari betur fram en hefur verið hingað til. (Forseti hringir.) Er ekki eðlilegra að færa hana aftur í þann farveg sem fyrir var?