140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var akkúrat vegna þessa síðasta atriðis, sem hv. þingmenn Ásbjörn Óttarsson og Helgi Hjörvar ræddu um, sem ég vildi beina spurningum til hv. þm. Helga Hjörvars, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Það snýr akkúrat að tekjuhlið fjárlaga. Ég ætla ekki að fjalla um það í þessu máli hver á að senda hverjum bréf eða umsögn en það vekur þó athygli að sú staða er uppi, eftir því sem mér sýnist, að á morgun munum við greiða atkvæði um fjárlagafrumvarp þar sem gengið er út frá tilteknum tekjuöflunarforsendum, en þau frumvörp sem gera ráð fyrir umtalsverðum tekjuöflunaraðgerðum fyrir ríkissjóð eru óafgreidd og eftir því sem mér skilst, og ég bið þá hv. þm. Helga Hjörvar að leiðrétta það ef það er rangt, geta þau breyst verulega frá þeim frumvörpum sem lögð voru fram í þinginu af hæstv. fjármálaráðherra. Þetta eru tekjuöflunarfrumvörp upp á milljarða króna, ég er ekki með það á reiðum höndum hvað gert er ráð fyrir miklum aðgerðum í því sambandi, hvort það eru 11 milljarðar, 15 milljarðar eða hve margir milljarðar eru undir í þeim frumvörpum um tekjuöflun sem eru á borðum hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Nú sit ég hvorki í efnahags- og viðskiptanefnd né fjárlaganefnd en ég heyri á göngum þingsins að það geti orðið verulegar breytingar á þessum frumvörpum. Maður veltir því fyrir sér: Er nægilega traust málsmeðferð (Forseti hringir.) að ganga frá frumvarpinu með þeim hætti sem hér er gert?