140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Helgi Hjörvar gat um eru þetta í rauninni tvö mál.

Annars vegar getum við sagt að það séu hinir stóru skattstofnar og hvaða áhrif þróun efnahagslífsins mun hafa á þá. Það er rétt að fyrir 2. umr. lágu fyrir nýjar spár frá Hagstofu Íslands sem ég get ekki lesið öðruvísi en svo að þær geri ráð fyrir minni vexti og meiri erfiðleikum á næsta ári en eldri spá Hagstofunnar sem gengið var út frá þegar frumvarpið var samið. Ég verð að játa það og um það kunnum við hv. þm. Helgi Hjörvar að vera ósammála að ég verð ekki var við það í þeim breytingum sem orðið hafa á fjárlagafrumvarpinu að tekið sé tillit til þess t.d. hversu mikið megi reikna með að tekjur ríkisins lækki í samanburði við frumvarpið eins og það var lagt fram í upphafi miðað við hvað útlitið er verra samkvæmt nýrri spá Hagstofunnar en hinni fyrri. Það er eitt.

Hins vegar eru það þessi sértæku tekjuöflunarfrumvörp sem hv. þingmaður nefndi og ég spurði um, sem eru óafgreidd og geta tekið breytingum. Hv. þingmaður segir þó tryggt þrátt fyrir breytingar að þau muni skila sambærilegum tekjum. Það er samt dálítið óheppilegt vegna þess að með því að afgreiða fjárlögin fyrir fram eru menn búnir að festa sig í því að ná þessum tekjum og þá erum við lent í sömu stöðu og lýst var hér í lítilli smásögu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar fyrr í kvöld, að við byrjum á því að ákveða útgjöldin og sjáum svo til hvort við fáum ekki hækkun á tekjunum til þess að geta staðið straum af útgjöldunum.