140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, við höfum mjög mörg verið að leggja áherslu á það að stóra málið væri það að drífa hér upp hagvöxt og það væri okkar helsta leið út úr vandanum. Þegar við gerðum efnahagsáætlunina haustið 2008 með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var gert ráð fyrir talsverðum hagvexti, 4–5% hagvexti á árunum 2011–2013. Nú stefnir hann í að vera kannski 2–2,4%. Þetta eru dæmi um hin efnahagslegu og hagstjórnarlegu mistök sem gerð hafa verið í tíð núverandi ríkisstjórnar. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður talaði um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Ég sat þennan fund, haustfundinn hjá Landsvirkjun, það var fróðlegur fundur. Þar kom meðal annars fram að það raforkuverð sem samið var um hafi verið eins hátt og hægt var að ímynda sér að hægt væri að ná við þær aðstæður sem þá voru uppi. Í öðru lagi var bent á það að þarna væri verið að vísa til arðsemi af eigin fé og þá erum við líka að tala um þegar bókfært verð Kárahnjúkavirkjunar er í hæstu hæðum og hefur ekkert verið afskrifað. Ljóst er til dæmis að Landsvirkjun, eftir tólf ár með litlum fjárfestingum, verður skuldlaust fyrirtæki þannig að ég hafna því algjörlega að hér hafi ekki verið hugað að arðseminni þegar var verið að skoða þessa hluti, auk þess sem ég er reyndar ósammála því að þetta verkefni hafi haft einhver afgerandi áhrif á neikvæða framvindu efnahagsmálanna. Það var auðvitað hið mikla innstreymi erlends fjár sem við þekkjum, sem við köllum núna jöklabréf, sem höfðu þar langmest um að segja.

Varðandi fræðslumálin, sem hv. þingmaður síðan kom að, er það þannig að í tíð ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins var stóraukið fjármagn til fræðslumála, til menntamála, enda er það þannig að þegar við skoðum þetta í alþjóðlegum samanburði, t.d. samanburði sem OECD gerir, (Gripið fram í.) þá erum við með hvað hæstu framlög til menntamála sem hlutfall af þjóðarframleiðslu sem þekkist í heiminum. Sama á reyndar við um heilbrigðismálin (Forseti hringir.) svo því sé líka haldið til haga.