140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:56]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Fyrri spurningin frá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, og þakka ég honum andsvarið, hvernig ályktun landsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um heilbrigðiskerfið falli að því sem við leggjum hér fram, þá tel ég að það falli algjörlega að þeim áherslum sem komu fram á þeim landsfundi. Það var auðvitað lögð mikil áhersla á að heilbrigðiskerfinu og velferðarkerfinu yrði hlíft eins vel og hægt væri. Það gera sér hins vegar allir grein fyrir því að þegar um helmingur ríkisútgjalda fer í einn tiltekinn málaflokk, t.d. í velferðarkerfið eins og við stöndum frammi fyrir núna, verður ekki undan því komist, það er engin leið, að draga saman í útgjöldum þar en gera það þó með mildari hætti en í hinum hluta útgjaldanna sem er þá allur annar rekstur. Þetta sjá allir og gera sér grein fyrir.

Ég hvet þingmenn til að skoða fyrir atkvæðagreiðsluna á morgun þær breytingartillögur sem hafa verið gerðar á fjárlagafrumvarpinu frá því að þingið fékk það til meðferðar því að þær undirstrika það að þingið hefur vald ólíkt því sem menn hafa stundum haldið fram. Við tökum stundum svona frumvörp sem berast til okkar og gerum það sem okkur sýnist við þau ef þannig liggur á okkur. Fjárlagafrumvarpið hefur tekið breytingum í meðförum þingsins og fjárlaganefndar. Ég hvet þingmenn til að skoða fyrir atkvæðagreiðsluna á morgun hvernig staðan verður í heilbrigðismálum og velferðarmálum á milli ára, frá árinu 2011 og fyrir árið 2012 nái breytingartillögurnar fram að ganga.

Varðandi endurhæfingardeildina á Sauðárkróki liggur það fyrir að með breytingartillögum, sem voru gerðar við 2. umr. og með þeim breytingartillögum sem við vorum að gera nú, m.a. með auknum (Forseti hringir.) fjármunum til að bregðast við ófyrirséðum atburðum, hefur það verið tryggt og (Forseti hringir.) tilkynnt stjórnendum sjúkrahússins á Sauðárkróki að ekki stendur til að loka þessari deild.