140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Í fyrsta lagi stendur í seinni málsgrein í ályktun frá landsfundi Vinstri grænna um heilbrigðiskerfið, með leyfi forseta:

„Frekari niðurskurður í heilbrigðiskerfinu getur ekki orðið án þess að þjónusta við sjúklinga skerðist alvarlega og heilsuspillandi álag á heilbrigðisstarfsfólk aukist.“

Eitthvað er misjöfn sýnin á þær aðgerðir sem er verið að fara í því að þær ályktanir og þau viðtöl sem við höfum séð við íbúa og starfsfólk, t.d. undirskriftasöfnunin egmotmaeli.is, tjá ekki þessa skoðun.

Það var einmitt eftir 2. umr. sem einna áköfustu viðbrögðin komu fram varðandi Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki þar sem íbúar, stjórnendur og aðrir töldu að of bratt væri farið. Ég hlýt því að líta svo á að þær aðgerðir sem hv. þingmaður nefndi og eru búnar að fara milli 2. og 3. umr. — að setja fjármuni í einhvern pott sem heilbrigðisráðuneytið á væntanlega að dreifa eða ráðstafa, að það sé sem sagt sá pottur sem hv. þingmaður er að vísa til að fé verði notað úr til að tryggja þessa þjónustu. Þær 100 milljónir sem þar eru duga vitanlega ekki til þess að tryggja alla þá þjónustu sem íbúar og aðrir telja sig þurfa að hafa sem grunnþjónustu. Ég fagna því hins vegar að þessi yfirlýsing skuli vera komin því að það er þá ástæðulaust fyrir það fólk sem var t.d. í sjónvarpsfréttum í dag að óttast um sinn hag og getu til að lifa eðlilegu lífi.