140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:04]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hér eru menn greinilega komnir í andlegar hugleiðingar og pælingar um leiðtoga og ekki leiðtoga. Ég get ekki neitað því að það hefur vakið athygli fleiri en mín að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á þingi hafa tekið forseta ASÍ sér til fyrirmyndar og kosið að bera hann fyrir málum sínum í ræðustól þingsins í dag og undanfarna daga. Ég man ekki eftir slíkum ákafa áður í þessa veru.

Varðandi það hvernig ég telji rétt að fjármagna fangelsisbygginguna liggur algjörlega fyrir að það er ódýrast og best ef hægt er að fjármagna framkvæmdir eins og fangelsi eða annað í þeim dúr með þeim peningum sem til eru í ríkissjóði þá stundina. Það er alltaf ódýrast. Það er ódýrasta fjármögnunin ef til eru peningar og hægt að fjármagna það með opinberu fé. Ég er hins vegar ekkert viss um að sú staða sé uppi í dag, ég er ekki sannfærður um að í ríkissjóði séu nægir peningar til að fjármagna þessa fangelsisbyggingu. Enn þá rekum við ríkið á lánsfé, peningum sem við þurfum að fá að láni. Við erum með þetta allt meira og minna á yfirdrætti og ég sé ekki í augnablikinu að það verði gert öðruvísi. En það koma tímar og koma ráð í þeim efnum. Mér finnst þetta í sjálfu sér ekki stóra málið í þessu samhengi heldur fyrst og fremst að það verði af þessu verkefni og leyst úr þessum brýna vanda.

Varðandi kaup á Grímsstöðum hef ég ekki myndað mér skoðun á því hvort þetta sé vænleg fjárfesting fyrir ríkið og ætla að fá að hugsa málið aðeins betur. Ég veit að félagi okkar austur í Kína hefur talsvert meiri áhuga (Forseti hringir.) á þessu en ég.