140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það hallar nú nokkuð kvöldi og mér skilst að það sé að koma að lokum þessarar umræðu, mælendaskrá tæmd. Ég vil við lok hennar og lok 3. og síðustu umræðu um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012 þakka fjárlaganefnd í fyrsta lagi og nefndarmönnum öllum sem og þeim sem hér hafa tekið þátt í umræðum og lagt gott til mála.

Ég er þeirrar skoðunar að heildarútkoman í þessu máli eftir umfjöllun fjárlaganefndar sé mjög ásættanleg og í raun kannski nær þeim markmiðum sem menn höfðu lagt upp með og þá á ég ekki bara við núna, við undirbúning þessa fjárlagafrumvarps, heldur líka þeim markmiðum sem menn höfðu áður unnið eftir og miðuðu að því að ná halla niður í ásættanleg mörk á árinu 2012. Við erum mjög nálægt því að vera á þeim slóðum sem eldri áætlanir höfðu gert ráð fyrir, þó að vissulega sé gert núna ráð fyrir mildari skrefum í því að klára verkefnið á árunum 2013 og síðan 2014.

Verði niðurstaðan sú sem breytingartillögur meiri hlutans teikna til og ekki mikið fráhvarf frá því í atkvæðagreiðslum á morgun lokar þetta í 20,7 milljarða kr. halla sem er nálægt 1,16% af vergri landsframleiðslu. Það hlýtur að teljast ásættanlegt frávik frá því rúmlega eina prósenti sem frumvarpið sjálft kom fram með í byrjun. Frumjöfnuður verður þá jákvæður upp á liðlega 2% af vergri landsframleiðslu, um eina 35 milljarða kr., sem sömuleiðis hlýtur að teljast ágætisbyrjun á því að hafa verulegan afgang af undirliggjandi rekstri ríkisins upp í fjármagnsliðina. Batinn í afkomu er þá um 135 milljarðar kr. mælt á þennan mælikvarða frumjafnaðar á þremur árum, frá árunum 2009–2012, gangi það í grófum dráttum eftir.

Það hefur kannski ekki mikið verið rætt hér, frekar en í umræðum um ríkisfjármál eða efnahagsmál á köflum undanfarna daga og vikur, um mikilvægi þess sem hér er undir í hinu stóra samhengi hlutanna, en ég held að ástæða sé til að minna á að á þennan þátt efnahagsmálanna er horft og hann er kannski stærsta einstaka breytan sem ræður því hvernig lánshæfismat landsins þróast, hvernig vaxtakjör þróast og hvaða ákvarðanir Seðlabankinn tekur í þeim efnum. Þetta er mælikvarði á stöðugleika og framvindu hagkerfis út úr erfiðleikum sem eru skoðaðir alþjóðlega og hafa mikil afleidd áhrif á fjölmarga aðra. Þannig er alveg ljóst að bankar eða fjármálafyrirtæki og stórfyrirtæki í sambandi við alþjóðleg viðskipti eiga mikilla hagsmuna að gæta til dæmis af því að geta vísað til þess að þróun ríkisfjármála sé jákvæð, að landið sé þar á réttri leið, að það sé ásættanlegur stöðugleiki í efnahagsmálunum og kennitölurnar séu ásættanlegar. Það mun greiða götu þeirra á alþjóðlegan fjármálamarkað, auðvelda til dæmis þeim bönkum sem hyggja á alþjóðleg skuldabréfaútboð að gera slíkt og hefur áhrif á lánskjörin bæði í nýjum lántökum og endurnýjun eldri lána ef slíkt á við.

Það er stundum ástæða til þess að horfa ekki einangrað hér á hlutina sem við erum að fást við innan veggja Alþingis þegar að því kemur að sauma saman og afgreiða eitt stykki fjárlagafrumvarp heldur muna eftir því að það er hluti af stærri heild, miklu stærri heild þar sem margar breytur takast á. Ég fullyrði að þessi niðurstaða sé trúverðug, hún muni gagnast okkur vel í samskiptum og viðræðum við slíka aðila á komandi vikum og mánuðum. Við getum farið nokkuð sátt frá okkar störfum hér inni á þingi með þetta út í kynningu og viðræður gagnvart öðrum aðilum. En það skiptir líka mjög miklu máli að Alþingi sem fjárveitingavald sýni fyrir sitt leyti staðfestu í þessum efnum og styðji við markmið stjórnvalda með traustri afgreiðslu á fjárlagafrumvarpinu þannig að hallinn sé ekki látinn aukast óásættanlega og það hefur að sjálfsögðu jákvæð áhrif.

Hér voru aðeins gerðar að umtalsefni veikar forsendur hagvaxtar á komandi ári og þá sérstaklega sá hluti hans sem aukinni einkaneyslu er ætlað að standa fyrir. Það er vissulega rétt að einkaneyslan hefur verið studd á þessu ári og að hluta til á undanförnum tveimur árum með hlutum eins og umtalsverðum útgreiðslum séreignarsparnaðar, hluti lána heimila og jafnvel fyrirtækja hefur verið í frystingu á meðan menn hafa verið að vinna úr því öllu saman en nú er sem betur fer að verða mikil breyting þar á og umfangsmiklum skuldaendurskipulagningaraðgerðum að ljúka um áramótin eða á allra fyrstu mánuðum næsta árs. Það mun að sjálfsögðu breyta talsvert þeirri mynd og eru þá að fara úr frysti málefni fjölmargra fyrirtækja og eftir atvikum heimila sem að sjálfsögðu hafa haft áhrif á kyrrstöðu í þessum efnum.

Vaxtaniðurgreiðslurnar settu auðvitað miklar fjárhæðir í umferð á þessu ári þegar greiddir voru út 16,4 milljarðar í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu til viðbótar 12 til 13 milljörðum sem eru inni í almenna kerfinu. Þetta eru umtalsverðir fjármunir sem og auðvitað eingreiðslur og launahækkanir sem urðu á miðju ári. Ég skil út af fyrir sig alveg hugleiðingar manna eins og hv. þm. Illuga Gunnarssonar um hvort þessar forsendur fyrir áframhaldandi kraftmikilli þróun einkaneyslunnar á næsta ári muni halda að öllu leyti. Nú er það sem betur fer þannig að einkaneyslunni er að sjálfsögðu ekki einni ætlað að leggja þarna af mörkum heldur auknum fjárfestingum og allgóðum horfum um útflutningsstarfsemi.

En ég tel að það sé auðvitað ýmislegt annað sem styðji þessa þróun, ég bendi mönnum til dæmis á að skoða horfur fyrir ferðaþjónustuna á næsta ári. Þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir um bókanir, um sætaframboð til landsins sem allar vísa í eina átt, að við getum, ef allt fer að óskum, áfram gert okkur vonir um umtalsverðan vöxt í þessari hraðvaxandi og mikilvægu atvinnugrein. Hvort það verður 12%, 15% vöxtur á næsta ári eða eitthvað aðeins minna er auðvitað of snemmt að segja, en að minnsta kosti hvað sætaframboð varðar og upplýsingar úr bókunum það sem af er fyrir næsta ár gefur góðar vísbendingar um að við getum áfram gert okkur vonir um kraftmikla þróun þar.

Hvað varðar sjávarútveginn eru sömuleiðis ágætishorfur á því að þar verði áfram mikil verðmætasköpun á næsta ári. Við gerum okkur vonir um allgóða loðnuvertíð, veiðiheimildir í þorski voru jú auknar í ár um 15 þúsund lestir og kolmunnakvótinn er að koma upp á nýjan leik o.s.frv. Það eru því ágætis jákvæð merki í bland við önnur sem eru kannski ekki eins hagstæð og mesta óvissuefnið þar væntanlega hvernig markaðir þróast. Ýmsar tækni- og þekkingargreinar, hugbúnaðariðnaðurinn, eru í miklum vexti og það er orðið almælt hjá þeim sem til þekkja að þar sé farinn að hamla vexti skortur á tæknimenntuðu starfsfólki. Það er svo er komið að það er að einhverju leyti jafnvel að bremsa vöxt sem ella gæti orðið hér í ýmsum fyrirtækjum á því sviði þessa mánuðina og þessi missirin. Ég er enn bjartsýnn á að það fari í gang á næsta ári, og jafnvel nú fyrir árslok í einhverjum tilvikum í gegnum endanlegar ákvarðanir, nokkur lítil og meðalstór fjárfestingarverkefni sem auðvitað vega nokkuð þungt.

Sömuleiðis bætist við þær opinberu framkvæmdir sem þegar hefur verið stuðlað að, svo sem eins og 10–12 milljarða framkvæmdum í heild í byggingu hjúkrunarheimila þar sem hápunktur framkvæmdanna er fram undan á næsta og þarnæsta ári, bygging Landspítalans og fleira í þeim dúr. Allt mun það hjálpa til og styðja, en langmikilvægast er að sjálfsögðu að aukinn gangur komist í fjárfestingar á vegum atvinnulífsins, þeirra fyrirtækja sem hafa fengið endurskipulagðar skuldir sínar og í sjálfu sér þau önnur sem eru í góðum færum til að fjárfesta fari að gera það.

Í talsverðum mæli hafa stærri útflutnings- og samkeppnisfyrirtækin greitt niður skuldir undanfarin þrjú ár. Um nýjar lántökur hefur tæpast verið að ræða þannig að það liggur í hlutarins eðli að mörg þessara fyrirtækja hafa í raun styrkt stöðu sína verulega með niðurgreiðslu skulda á þessu tímabili. Það sýna mælingar á gjaldeyrisstreyminu og það hefur á sinn hátt áhrif á það að gengi krónunnar hefur styrkst minna en ella væri. En til framtíðar litið er það auðvitað gott, þessi fyrirtæki hafa lækkað skuldahlutföll sín og styrkt stöðu sína og byggt upp fjárfestingargetu sem mun fyrr eða síðar virkjast í auknum mæli.

Það eru ágætishorfur á því að nú fari að lifna yfir byggingariðnaðinum í kjölfar þess að fasteignamarkaður hefur tekið talsvert við sér og stóraukin velta er komin á íbúðamarkaðinn. Þá styttist að sjálfsögðu í það að sá markaður leiti jafnvægis og fara þurfi að huga að nýbyggingum eins og alltaf gerist eftir það hlé sem orðið hefur á þeim markaði. Auðvitað er það þannig að við aðstæður sem þessar byggist upp ákveðin þörf, hún safnast saman og þegar hlutirnir fara svo loksins í gang getur batinn orðið kraftmeiri en menn ættu kannski von á af þeim sökum. Um þetta og margt fleira mætti ræða lengi kvölds, virðulegur forseti, ég ætla ekki að gera það en ég vildi bara leyfa mér þessar örstuttu hugleiðingar um þennan þátt mála sem vissulega er mjög stór, því að okkur er öllum ljóst að viðgangur okkar á næstu missirum er auðvitað mjög háður því hvaða kraftur kemst hér í fjárfestingar og umsvif í hagkerfinu og ég held að engin pólitísk deila sé um það. Við erum okkur öll meðvituð um mikilvægi þess að svo gerist.

Við hljótum auðvitað að gleðjast yfir því svo langt sem það nær að flest bendir til að hagvöxtur á þessu ári verði kannski nær 3% en 2,5% og greiningardeildir hafa núna undir lok ársins verið heldur að hækka sínar spár. Seðlabankinn spáir nú yfir 3% hagvexti og greiningardeild Landsbankans birti í síðustu viku spá upp á 3,2% þannig að nýjustu vísbendingar í þeim efnum eru frekar til hækkunar en lækkunar á eldri hagvaxtarspám. Það er ekki svo slæmt borið saman við það sem því miður gefur að líta víða í nálægum löndum og horfur upp á 2,5% plús, mínus eitthvað á næsta ári eru heldur ekki svo daprar þrátt fyrir allt, sérstaklega þegar við lítum til umhverfisins í kringum okkur. Þar liggja auðvitað að hluta til okkar áhyggjur, það er gengin í garð örlagavika í Evrópu að margir telja og niðurstöður leiðtogafundarins þar ytra á föstudaginn gætu átt eftir að marka tímamót til góðs vonandi en jafnvel ekki eins mikið til góðs ef þar næst ekki sæmilega sterk niðurstaða. Það er svo komið að nú mæna allra augu á Evrópu og meira að segja fjármálaráðherra Bandaríkjanna gerði sér sérstaka ferð þangað í dag og næstu daga til þess að leggja áherslu á hversu mikilvægt það er fyrir hagkerfi heimsins að það greiðist úr vanda sérstaklega Evrópuríkjanna. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að Bandaríkjamönnum henti það ágætlega að athygli heimsbyggðarinnar sé svolítið á vandanum í Evrópu því að satt best að segja hafa þeir við sitthvað að glíma heima fyrir líka.

Ég ætlaði örlítið að gera að umtalsefni, virðulegur forseti, undir lokin það sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kom inn á í ræðu sinni hér í dag. Hann beindi þar svolítið spjótum að fjármálaráðuneytinu og talaði um að fjármálaráðuneytið hafi skirrst við að afgreiða kostnaðarmat á frumvarpi því sem hann árlega leggur hér fram eða sá sem í því hlutverki er varðandi fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins á ári hverju, þ.e. þurfi hinn lögbundni tekjustofn breytinga við. Það er rétt að það tók nokkurn tíma að vinna þessa kostnaðarumsögn en ég tel ósanngjarnt að gera því skóna að það hafi verið af einhverri meinbægni af hálfu fjármálaráðuneytisins sem það tók nokkurn tíma. Ég vek athygli á því að fjármálaráðuneytið hafði ekki fengið neinar fjárbeiðnir frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu eða Fjármálaeftirlitinu um hækkanir eða annað slíkt og við sáum í fyrsta skipti kostnaðaráætlun eða rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins þegar beðið var um kostnaðarmat við frumvarpið sem var í byrjun nóvember.

Þá stendur þannig á í fjármálaráðuneytinu að það ryðjast inn frumvörp frá öllum ráðuneytum sem kappkosta að koma þeim fyrir þing fyrir lokafrest til framlagningar mála sem afgreiðast eiga fyrir jól, sem er lok þess mánaðar, þannig að mikið álag verður á þeirri skrifstofu sem á að útbúa tugi kostnaðarmata á nokkrum vikum við mikinn fjölda stjórnarfrumvarpa. Þetta fellur saman við annasaman tíma í ráðuneytinu hvort sem er þar sem er vinna með fjárlaganefnd að fjárlagafrumvarpi, fjáraukalögum og efnahags- og skattanefnd og fleiri nefndum að skattamálum kallar auðvitað á heilmikla starfskrafta. Það er því einfaldlega þannig að því eru takmörk sett hversu miklu fjármálaráðuneytið og viðkomandi skrifstofa þar afkastar og það er ekki hægt að gefa sér að þar liggi neitt annað baki en einfaldlega þær aðstæður sem uppi eru að það tekur sinn tíma að vinna öll þau kostnaðarálit.

Í því máli sem hér um ræðir, þ.e. hvernig fjárveitingum til Fjármálaeftirlitsins er fyrir komið, er líka uppi grundvallardeila sem snýr að mikilvægum atriðum sem mér finnst eðlilegast að ræða hér feimnislaust. Hún lýtur að því hversu sterk staða sérlaga af þessu tagi um markaðar tekjur þessa eftirlitsaðila eigi að vera gagnvart fjárlögum, fjárreiðulögum og fjárlaga- og fjárstjórnarvaldi Alþingis. Fjármálaráðuneytið hefur stutt að vald Alþingis sem löggjafa og fjárstjórnarvalds í þessum efnum verði að vera óskorað því að annars er mikill vandi uppi. Ef svo væri að í raun hefði fjárlagavaldið verið með einhverjum hætti að hluta til framselt í sérlögum sem gengju framar fjárreiðulögum og stjórnarskrá, sem með algerlega skýrum hætti mælir fyrir um að engar fjárveitingar má af hendi reiða nema fyrir því séu heimildir, eins og hv. þingmenn kunna.

Þess vegna er það svo að fjármálaráðuneytið og viðkomandi skrifstofa þar skilaði nokkuð ítarlegu kostnaðarmati um þetta frumvarp upp á sex blaðsíður, sem hv. þingmenn geta skoðað í frumvarpinu, og ég vísa til þess um rökstuðning fyrir afstöðu okkar. Við erum sammála því áliti ríkislögmanns í fjármálaráðuneytinu að það sé auðvitað ekki heppilegt og kannski ótækt að það sé misræmi milli tekjustofnsins og fjárheimildanna og það eigi að stilla af þannig að ekki sé uppi ágreiningur um að það sé aflað meiri tekna og lagt inn á bundinn höfuðstól eða annað í þeim dúr. Auðvitað er æskilegast að þetta gangi algerlega í takt saman og að löggjafinn gangi þá annars vegar frá fjárheimildunum og hins vegar tekjuöfluninni þannig að þetta tvennt stemmi. Sé misræmi þarna á milli getur það verið tilefni deilna og álitamála eins og rakið er í áliti ríkislögmanns. Ég les hvergi út úr áliti ríkislögmanns, enda kæmi það á óvart, að ákvæði stjórnarskrár og fjárreiðulaga séu ekki hafin yfir vafa hvað það snertir að fjárveitingavaldið og fjárstjórnarvaldið liggi hjá Alþingi og undir það verði allur hinn opinberi rekstur að falla.

Nú er það vissulega svo að það eru ágætar efnislegar og ríkar ástæður fyrir því að Fjármálaeftirlitið þurfi að vera sjálfstætt í störfum sínum. Það er líka rétt að eftirlitsaðilarnir greiða af því kostnaðinn, þeir borga fyrir eftirlitið með sjálfum sér. En það þýðir auðvitað ekki að sjálfstæði þessa aðila skapi einhverja óþekkta stöðu sem hvergi annars staðar gæti þá átt við. Ég bið menn að fara varlega í að nálgast þetta út frá þeim sjónarhóli að til þess að eftirlitsaðili eða stofnun af þessu tagi geti verið algerlega sjálfstæð eigi hún líka að ráða rekstrarumfangi sínu. Það væri ófæra hin mesta og auðvitað gætu margir komið í næstu umferð og sagt hið sama.

Er það ekki þannig að dómstólarnir eiga að vera algerlega sjálfstæðir, á ekki Hæstiréttur að vera algerlega sjálfstæður? Jú, að sjálfsögðu, hvorki löggjafarvaldið né framkvæmdarvaldið á að grípa inn í starfsemi hans. En það þýðir ekki og hefur aldrei verið túlkað svo að Hæstiréttur eigi að hafa sjálfdæmi um fjárveitingar til sín, menn hafa aldrei lagt þann skilning í sjálfstæði Hæstaréttar frekar en margra annarra aðila sem eiga að stafa algjörlega sjálfstætt. Dæmi: Ríkisendurskoðun. Enn annað dæmi: umboðsmaður Alþingis o.s.frv. Við komum fyrir ýmsum stofnunum í hinum opinbera rekstri sem eiga að hafa sjálfstæða stöðu þegar að starfseminni kemur og þeim ákvörðunum sem þær taka á grundvelli laga sem Alþingi setur og fjárlög eru lög eins og önnur lög.

Það er að sjálfsögðu sömuleiðis rétt að við þurfum að gæta þess hvað Fjármálaeftirlitið snertir að sjálfstæði þess sé virt í störfum þess og að faglega sé staðið að ákvörðunum um starfsumhverfi þess, þar með talið fjárheimildir, eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra nefndi í ræðu sinni. Það þýðir ekki að fjárveitinga- og fjárstjórnarvald Alþingis sé þar með upphafið, því að sjálfsögðu tekur löggjafinn, fjárveitingavaldshafinn, faglegar ákvarðanir þegar hann metur þörf til einstakra verkefna og menn mega ekki fara út í þær ógöngur að halda að það sé einhver veggur á milli faglegra niðurstaðna í fjárlögum gagnvart aðilum af þessu tagi og öllu hinu sem fjárlaganefnd sinnir og fæst við. Eigum við ekki að ætla það að við séum almennt að reyna að taka hér vandaðar og faglegar ákvarðanir og þar á meðal um það að fara yfir og meta hvert sé nauðsynlegt rekstrarumfang starfsemi af þessu tagi?

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta. Ég fagna því að fjárlaganefnd og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafa tekið undir að það sé þörf á að fara yfir þetta og koma þessum málum í fastmótaðan farveg því að það er ómögulegt að standa í einhverju skaki um þetta ár eftir ár. En ég verð að segja að mér fundust þau orð sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lét hér falla og beindi að fjármálaráðuneytinu ekki alls kostar makleg, og hef ég þá sagt það.

Að lokum og að síðustu hafa menn haft svolítið uppi í umræðunni áhyggjur af því, á grundvelli þess sem heyrst hefur frá talsmönnum Alþýðusambands Íslands, að afgreiðsla þessara fjárlaga kunni að stofna framlengingu kjarasamninga eða gildi þeirra í einhverja hættu. Ég vil segja um það eitt að ég tel hyggilegt að hafa ekki uppi um það stór orð. Ég trúi því og treysti að þegar menn skoða þau mál öll í sínu samhengi vandi menn sig áður en þeir hrapa að einhverjum ákvörðunum í þeim efnum. Það ég best veit lítur bærilega út með það að meginforsenda fyrir framlengingu kjarasamninga eftir áramótin, sem er sú að kaupmáttarstigið í þeim samningum hafi haldist og hún sé uppfyllt. Það bendir eiginlega allt til þess. Og ef svo er þá er stærsta einstaka ástæðan sem maður gæti skilið að leiddi til þess að menn efuðust um að framlengja kjarasamninga ekki lengur fyrir hendi.

Ég fullyrði að heildarafgreiðslan hér varðandi almannatryggingar, atvinnuleysisbætur og velferðarmálin almennt og önnur þau markmið sem skipta líka miklu máli er ásættanleg. Ég veit að ábyrgir aðilar vinnumarkaðarins, Alþýðusamband Íslands þar með talið, eru sér líka mjög vel meðvitaðir um mikilvægi þess að við séum að ná ásættanlegum árangri í sambandi við hallarekstur ríkissjóðs og leggja traustar forsendur til framtíðar hvað varðar undirbyggingu velferðar í landinu. Hér megum við ekki bara horfa til augnabliksins og núsins og næsta árs heldur líka til framtíðarinnar. Það sjá allir og skilja hversu mikilvægt er að draga niður hallareksturinn eins og við mögulega getum til að minna fari í skuldir og vexti og afborganir á komandi tímum. Það treystir forsendur velferðar í landinu til framtíðar um leið og við reynum að gera þetta eins ásættanlegt og nokkur kostur er í núinu og til nánustu framtíðar litið.

Ég tel að fjárlaganefnd hafi unnið vel að því, bæði við 3. umr. og eins við 2. umr., að reyna að milda þessar aðgerðir á þeim sviðum þar sem gagnrýnin hefur verið mest og komið hefur í ljós að væri einna tilfinnanlegast. Þar hafa heilbrigðismálin verið látin njóta mikils forgangs og það nálgast eða er komið yfir milljarð króna sem í raun er aukalega bætt inn í þann málaflokk hér samtals við 2. og 3. umr. Það hlýtur að teljast þó nokkuð í ljósi þeirra aðstæðna sem við glímum við.

Auðvitað er þar og reyndar miklu víðar erfitt, og af sjálfu leiðir, hér í þriðju eða fjórðu umferð erfiðra aðgerða við að ná þeim árangri í ríkisfjármálunum sem við þurfum að ná. En við erum komin langa leið, það held ég að megi fullyrða, og ég hvet menn til þess, verði þetta samþykkt á morgun, og ég skal aðstoða ef þess er þörf, að fara þá með kennitölurnar sem við sjáum, fara með jákvæðan frumjöfnuð upp á rúm 2%, heildarjöfnuð í halla upp á liðlega 1% og bera hann saman við það sem stefnir í við fjárlagaafgreiðslur í öðrum löndum sem eru einmitt að ganga í gegn þessa dagana. Þetta er nú rólegt hjá okkur sem erum að klára 3. umr. á einum degi. Gríska þingið er á sínum fimmta degi að ræða þar heldur óskemmtileg fjárlög og greiðir kannski atkvæði um þau núna í nótt einhvern tíma bak við víggirðingar og herlögregluliðssveitir. Ætli það sé nú ekki þannig þegar upp er staðið að við getum sæmilega við okkar hlut unað, þó að hann hafi ekki verið auðveldur eða léttur borið saman við hvernig þetta gengur víða annars staðar satt besta að segja?

Það er svo komið — auðvitað mundi ég svo sem aldrei vilja skipta en maður hefur stundum verið spurður að því hvernig það sé að vera og hafa verið fjármálaráðherra Íslands núna í hartnær þrjú ár, og ýmsir sem horfa á það utan frá telja að það hljóti að hafa verið hið hroðalegasta hlutskipti og jafnvel eitthvert erfiðasta starf í heimi, sögðu menn stundum fyrst eftir hrunið. Þegar ég lít á þessa hluti og horfi á það sem kollegar mínir víða, í Evrópu ekki síst, eru að glíma við er nú svo komið að ég mundi ekki vilja skipta í þeim skilningi við nema svona þrjá, fjóra. Auðvitað er Noregur í sínum sérflokki og nokkur lönd önnur eru ívið betur sett eða kannski á svipuðum slóðum og við en þau eru ekki mörg. Það undarlega er að þegar þetta er skoðað eru kennitölurnar fyrir Ísland, eins og árið 2012 horfir, vel yfir meðallagi OECD-ríkjanna og það eru ekki nema þrjú, fjögur, fimm Evrópuríki sem eru að þessu leyti betur stödd með sín ríkisfjármál til dæmis eða á svipuðum slóðum. Hefðum við öll getað treyst því að svo yrði í árslok 2008 eða í byrjun árs 2009 að við værum þó komin þetta á leið ræðandi þessi mál hér í desember anno domini 2011? Ég er ekki viss um það.

Frú forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég endurtek þakkir mínar til allra sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og vinnu við að klára þetta frumvarp í búning til lokaafgreiðslu.