140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

breytingar á ráðuneytum.

[15:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er algjörlega ljóst í mínum huga að miðað við þær umræður sem hafa orðið á Alþingi og í fjölmiðlum um ráðuneytabreytingar og eru meira og minna sprottnar af getgátum eru þingmenn og fjölmiðlar komnir fram úr sjálfum sér í þessu efni. (Gripið fram í: … ráðherra.) Hér er farið að ræða um að leggja eigi niður efnahagsráðuneytið o.s.frv. Mögulegar breytingar á ráðuneytunum á þessu kjörtímabili er að finna í stjórnarsáttmálanum. Það var byrjað á því að stofna efnahagsráðuneyti sem var ekki síst vegna þeirrar skýrslu sem við fengum um að ekki væri rétt að efnahagsmálin væru dreifð á mörg ráðuneyti, það væri skynsamlegra að þau væru í einu ráðuneyti. Engin ný ákvörðun hefur verið tekin í því máli. Engin fagleg úttekt hefur farið fram á því hvort rétt væri að gera einhverjar breytingar í þessu efni. Ég vona að það svari hv. þingmanni. Við erum fyrst og fremst að vinna í samræmi við stjórnarsáttmálann og þær tillögur sem þar liggja fyrir um ráðuneytabreytingar og út af öllum getgátum um einhverjar breytingar á efnahagsráðuneytinu ítreka ég að engin ný ákvörðun hefur verið tekin um breytingu á því frá því að sú ákvörðun var tekin að stofna það.