140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

hagvöxtur.

[15:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í morgun bárust þær gleðifréttir frá Hagstofunni að landsframleiðsla fyrstu níu mánuði ársins hefði vaxið um 3,7% miðað við sama tímabil í fyrra. Eins og gengur skoðaði ég hvað bjó undir umbúðunum og þar mætti mér vægast sagt skelfileg sjón. Hinn mikli hagvöxtur byggir á sandi. Hann er nær eingöngu drifinn af ósjálfbærri einkaneyslu. (Gripið fram í.)

En hvernig má það vera að einkaneyslan sé jafnmikil og raun ber vitni? Á því er einföld skýring. Það er búið að greiða út á þessu ári 25 milljarða kr. af séreignarsparnaði, það er búið að greiða út 6 milljarða af vaxtabótum, endurgreiðslur Landsbankans á vöxtum námu 4,4 milljörðum og, það sem er kannski það versta, heimilin borga nú mun minna af lánum sínum en árið 2009.

Ef enn er rýnt í þessar hagvaxtartölur blasir við að atvinnuvegafjárfesting sem þó var í sögulegu lágmarki dróst saman um 7,7% á milli annars og þriðja ársfjórðungs. Eins og allir vita er fjárfesting drifkraftur heilbrigðs, sjálfbærs hagvaxtar. Fjárfesting er beintengd því sem kallað er pólitísk óvissa, en hæstv. iðnaðarráðherra gerði hana að umtalsefni í gær á fundi Viðskiptaráðs og Íslandsstofu þegar hún sagði, með leyfi forseta:

„Ófyrirsjáanlegt viðskiptaumhverfi sökum óskýrra leikreglna og oft og tíðum matskenndrar ákvarðanatöku stjórnvalda er helsta ástæða þess að erlendir aðilar óttast að leggja í fjárfestingar á Íslandi.“

Svo mörg voru þau orð. Af þessu tilefni langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að hagvöxtur í dag byggi á hverfulli froðu og jafnframt hvort hæstv. ráðherra hyggist beita sér fyrir því að viðskiptaumhverfið verði lagað á Íslandi þannig að fjárfesting aukist (Forseti hringir.) og hagvöxtur verði sjálfbær á komandi árum.