140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

launamunur kynjanna.

[15:29]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég deili fullkomlega þeim áhyggjum sem fram komu í máli fyrirspyrjanda. Sú könnun sem hún vitnaði í er mjög alvarleg sem sýnir að launamunur milli kynjanna vex. Það er stutt síðan við sáum líka hjá hinu opinbera alvarlegar tölur um vaxandi launamun.

Það þarf að taka á þessu máli og það hefur verið reynt með margvíslegum hætti, ekki bara í þessari ríkisstjórn heldur fyrri ríkisstjórnum líka. Því miður verðum við að viðurkenna það og standa frammi fyrir því að það hefur ekki skilað miklum árangri þótt menn hafi farið í ýmsar aðgerðir. Ég ítreka að það á ekki bara við um þessa ríkisstjórn heldur líka fyrri ríkisstjórnir.

Þegar þessi launakönnun birtist sem sýndi launamismun hjá hinu opinbera kallaði ég saman ráðherranefnd um jafnréttismál sem í eiga sæti fjármálaráðherra, innanríkisráðherra og velferðarráðherra sem fer með jafnréttismálin. Þar fórum við ítarlega yfir þetta og leiðir til úrbóta. Sérstakri nefnd var falið að fara nákvæmlega í þá könnun og ofan í það til hvaða aðgerða væri hægt að grípa. Hún hafði tíma núna til áramóta til að skila okkur í ráðherranefnd um jafnréttismál niðurstöðum sínum um til hvaða aðgerða hún teldi hægt að grípa til að taka á þessu máli um opinbera starfsmenn.

Ég hef fylgst með því að það hefur tekið miklu lengri tíma en við ætluðum á þingi vegna þess að þegar Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, ég held að ég fari rétt með, voru í ríkisstjórn voru gerðar breytingar á jafnréttislögum. Meðal annars átti að koma á jafnlaunastaðli sem átti að vera tæki til að taka á þessum málum. (Forseti hringir.) Það hefur gengið allt of seint að koma á slíkum staðli. Ég hef rekið á eftir því og ég vona að sem fyrst munum við fá það tæki í hendurnar til að vinna á þessu máli en sannarlega deili ég áhyggjum með hv. fyrirspyrjanda.