140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við göngum nú til atkvæða um fjárlög ársins 2012. Í þessum fjárlögum erum við að hækka laun ríkisstarfsmanna, lífeyrisþega og atvinnulausra í samræmi við kjarasamninga og auka fjármuni til heilbrigðismála miðað við frumvarpið eins og það lá fyrir. Við erum að stórefla menntunarmöguleika fólks án atvinnu og formlegrar menntunar. Á sama tíma er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að vinna að rammaáætlun um vernd og nýtingu orkuauðlinda, auðlindastefnu, fjárfestingarstefnu, eflingu ferðaþjónustu og skapandi greina og metnaðarfullri áætlun um náttúruvernd.

Í þessum fjárlögum sýnir stjórnarmeirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna þriðja árið í röð pólitískan kjark til að takast á við niðurskurð og skattbreytingar sem eru nauðsynlegar til að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Með því drögum við úr vaxtakostnaði til framtíðar og tryggjum fjármuni í velferðarkerfið. Með þessum fjárlögum stuðlar hin norræna velferðarstjórn að sjálfbærri þróun í efnahagsmálum, velferðarmálum og umhverfismálum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)