140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:42]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við göngum hér til atkvæðagreiðslu um fjárlög næsta árs. Í þessum fjárlögum er röng nálgun, of mikil skattlagning og of mikill niðurskurður. Þessi fjárlög ganga ekki upp fyrir það samfélag sem við viljum búa í. Það er tímabært að taka á skuldum ríkisins og hins opinbera með öðrum hætti, svo sem með samningum um frestun á gríðarlegum vaxtakostnaði um nokkur ár á meðan verið er að vinna úr hruninu.

Einstaka liðir meiri hlutans í þessu frumvarpi eru í lagi sem og margar breytingartillögur sem Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og þingmenn utan flokka leggja til og við munum styðja þær. Í heildina vegur þetta frumvarp hins vegar að grunnþáttum samfélagsins og það er samfélaginu til skaða ef það fer í gegnum þingið í dag.