140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:49]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Frú forseti. Ég fagna því sérstaklega að sjálfstæðismenn lýsi því yfir að þeir séu reiðubúnir að skoða þetta við 4. umr., sem mun að sjálfsögðu ekki eiga sér stað. Við leggjum til að tekinn verði helmingurinn af því sem hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason lögðu til áðan og var fellt. Þessi tillaga hefur verið gagnrýnd fyrir það að ekki sé hægt að framkvæma hana, en þeir sem hafa sagt það hafa um leið sagt að þetta mundi auka flækjustigið. Ég er sammála því að þetta mun auka flækjustigið en hafna því alfarið að þetta sé illmögulegt í framkvæmd.

Við höfum líka sagt að við viljum ekki nota þessa fjármuni til að fresta því að tekið verði á fjárlagahallanum. Við höfum reyndar tekið fram að við viljum lækka þau vaxtagjöld sem falla á ríkissjóð á næsta ári upp á eina 78 milljarða og er kannski einhver (Forseti hringir.) stærsti og mesti vandi Íslendinga í dag.