140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið rætt í þessum stól í þessari umferð fjárlagafrumvarpsins um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Ég hef áður lýst því yfir að þar er of langt gengið. Stofnanir víðast hvar á landinu eru búnar að skera inn að beini og heilbrigðisstofnun sú sem hér er verið að greiða atkvæði um, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, hefur gengið það langt að leggja fram hugmyndir um að ganga á grunnþjónustuna og skera niður í heilsugæslunni, sem er gríðarlega alvarlegt mál.

Fyrir ári síðan ræddum við það hér í þingsal að við mundum ekki aftur horfa upp á niðurskurðaraðgerðir í heilbrigðiskerfinu án þess að skýr forgangsröðun lægi fyrir. Því miður hefur stefnumótun ekki farið fram að því leyti að hér er ekki skýrt með hvaða hætti verið er að taka á málum. Þetta virðist vera handahófskennt. Ég segi já við þessari tillögu sjálfstæðismanna. Það er of langt gengið í niðurskurðinum og það hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar að ganga þetta langt í niðurskurði í heilbrigðiskerfinu.