140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:40]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér er ekki um háa upphæð að ræða, 2 milljónir, sem við framsóknarmenn leggjum til að fari í að halda áfram að safna upplýsingum um áfengisneyslu Íslendinga. Á síðustu 30 árum hefur áfengisneysla aukist um 70% og er komin upp í 7,5 lítra á íbúa. Hagstofan er hætt að safna upplýsingum um áfengisneyslu vegna niðurskurðar og við teljum að ekki sé hægt að sinna forvarnastarfi á Íslandi til langs tíma nema við höldum utan um þessar upplýsingar.

Ég skora á hæstv. velferðarráðherra, ef þessi tillaga verður ekki samþykkt, að útvega þetta fjármagn. Þetta eru lágar upphæðir en gefa mjög miklar og mikilvægar upplýsingar. Við verðum að taka á í áfengisvörnum, reyndar líka mjög mikið í tóbaksvörnum, og þetta er leiðin. Það verður að safna upplýsingum og það má ekki verða neitt rof í því. Ég skora á hæstv. velferðarráðherra að finna þessu stað. Ég segi já.