140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég held að við öll séum sammála um að það sé nauðsynlegt að hafa sterkt og öflugt eftirlit með fjármálamarkaðnum eins og reynslan hefur svo sannarlega kennt okkur. Hins vegar höfum við ályktað þess efnis að það ætti að fara fram úttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum og það hefur líka verið send frá Alþingi tillaga þess efnis að skoðað yrði hvort ástæða væri til að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið, sem ætti að leiða til ákveðinnar hagræðingar. Ekkert af þessu hefur verið gert. Því get ég ekki stutt það að stofnunin fái þessa aukafjárveitingu. Við þurfum að fara að vinna vinnuna okkar og fara í þá úttekt sem við ætluðum okkur að gera. Í staðinn er möguleiki á því að fjármálafyrirtækin greiði þessa upphæð í ríkissjóð og við gætum þá notað hana í önnur verkefni. Eins og er tel ég ekki ljóst að best sé að setja þessa peninga í Fjármálaeftirlitið. Við eigum eftir að fá það á hreint.