140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þessa tillögu er alls ekki hægt að samþykkja, því að þrátt fyrir allt tal um lýðræði og mikilvægi þess og að þessi tillaga sé í þá veru að auka lýðræðið er hún það að sjálfsögðu alls ekki.

Það að stjórnmálaflokkar séu til og hægt sé að reka þá þannig að þeir sem aðhyllast þá stefnu og vilja kjósa þá flokka og taka þátt í starfi þeirra er gríðarlega mikilvægt fyrir lýðræði á Íslandi og alla lýðræðislega umfjöllun og umræðu. Það er því algerlega úr takti að leggja fram tillögu sem þessa þegar stjórnmál dagsins, stjórnarflokkarnir, mega hvorki, samkvæmt hugmyndafræði sumra í samfélaginu, ná sér í peninga frá fyrirtækjum né einstaklingum né ríkissjóði. Hvernig eiga þá stjórnmálasamtök að geta rekið sig? Þarna er mikill misskilningur á ferðinni, frú forseti. Það er ekki hægt að samþykkja þessa tillögu því að hún vinnur gegn lýðræði.