140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ef allt þetta er nú satt og rétt sem hæstv. velferðarráðherra sagði þá þarf ekki að loka líknardeild, þá þarf ekki að leggja niður réttargeðdeildina á Sogni og þá þarf ekki að fara í þennan sparnað á heilbrigðisstofnunum eins og hann er að fara fram á. En dæmin eru nákvæmlega þau að síðustu tvö til þrjú ár höfum við ekki getað fengið skýrar tölur um hver staðan er. Við höfum enn ekki skýrar tölur og framkvæmdastjórar á heilbrigðisstofnunum hringinn í kringum landið vita ekki hvað stendur í þessum fjárlögum af því að niðurstaðan varð sú hjá meiri hluta fjárlaganefndar að setja slatta í poka, láta hæstv. velferðarráðherra fá það og svo á hann að deila því út eftir behag. Það veit enginn hver staðan er á einstakri heilbrigðisstofnun hringinn í kringum landið en við vitum það hins vegar öll í salnum að hún er ekki góð og þetta er of langt gengið. Hér eru tillögur sem færa niðurskurðinn til baka, þeim er frestað frá því í fyrra, hann er strikaður út. En 1,5% á yfir alla að ganga, það hefði verið skynsamlegur og hæfilegur niðurskurður.