140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:40]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að vekja athygli á 5. tölulið. Hér er verið að auka framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og þetta tengist verkefninu Nám er vinnandi vegur sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og hæstv. velferðarráðherra ýttu úr vör síðasta vor.

Um var að ræða afar merkilegt verkefni sem fólst í því að veita ungum atvinnuleitendum tækifæri til að fara af atvinnuleysisskrá og í nám. Það hefur tekist með þeim ágætum að nú eru um eitt þúsund ungmenni á þessu hausti á skólabekk sem áður voru föst á atvinnuleysisskrá. Þetta þýðir að umtalsvert meiri fjöldi sækir lánshæft nám á þessu hausti en reiknað var með og birtist það í þessum auknu fjárveitingum upp á 270 millj. kr. Hér er verkefni þar sem verið er að takast á við atvinnuleysisvandann hjá ungu fólki með hárréttum áherslum.