140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er verið að auka framlög til Fjármálaeftirlitsins og fyrir því eru ærnar ástæður, þær hamfarir sem urðu í íslensku fjármálakerfi sem voru af stærðargráðu sem telst vera á heimsvísu þar sem við erum með gjaldþrot sem komast á lista yfir einhver stærstu gjaldþrot veraldarsögunnar. Slíku fylgir mikil uppgjörsvinna, því fylgir umtalsverður kostnaður.

Alþingi lá á liði sínu við að efla Fjármálaeftirlitið fyrir hrun. Við skulum ekki liggja á liði okkar í því efni eftir hrun. Þó að sjálfsagt sé að fara yfir, meta og fylgjast vel með þessari starfsemi eins og annarri í landinu er það skylda okkar eftir þá ógæfu sem við rötuðum í að láta eftirlitsaðilann á fjármálamarkaði hafa það sem hann telur sig þurfa til þess bæði að gera upp þetta hrun og fylgjast með því nýja og brothætta kerfi sem við höfum endurreist.