140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:22]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tekið eftir því að neinn úr minni hlutanum vilji ekki hafa hér öflugt fjármálaeftirlit. Það sem við erum hins vegar að benda á er að verið er að setja gríðarlega fjármuni, um 550 milljónir, ofan á þær hækkanir sem hafa komið til eftirlitsins á undanförnum árum. Þar hefur starfsmönnum fjölgað úr 30 í um það bil 130. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að farið verði ofan í saumana á þessum rekstri. Virðulegur efnahags- og viðskiptaráðherra sagði í ræðu í gær að fjármálaráðuneytið hefði staðið í vegi fyrir því að búið væri að leggja frumvarpið fram. Hæstv. fjármálaráðherra bar svo blak af ráðuneytinu.

Þetta mál er einfaldlega ekki fullunnið og meðan það er ekki fullunnið er ekki forsvaranlegt að leggja í eftirlitið um hálfan milljarð (Forseti hringir.) sem hefði heldur betur getað nýst í heilbrigðis- og velferðarkerfi þjóðarinnar.