140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágætt enn á ný að við setjum upphæðir í samhengi. Það hefur verið mjög erfitt að kreista fram 700–800 milljónir aukalega í heilbrigðisstofnanirnar. Hugsið ykkur hversu auðvelt virðist hins vegar vera að ákveða að við ætlum að setja 550 milljónir í Fjármálaeftirlitið. Þá segir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að þessi tekjustofn sé sérstaklega eyrnamerktur Fjármálaeftirlitinu. Við erum hins vegar að leggja ýmsar aðrar álögur á fjármálafyrirtækin. Það er talað um bankaskatt, fjársýsluskatt, gjald vegna umboðsmanns skuldara, að sjálfsögðu hefðbundinn tekjuskatt og fyrirtækjaskatt þannig að ef þessi fyrirtæki greiddu ekki þetta gætu þau hugsanlega borgað meira annars staðar. Er það ekki rétt?

Ég ítreka það sem ég sagði í fyrri atkvæðagreiðslu um þetta mál, við þurfum að tryggja að Fjármálaeftirlitið sé að gera það sem það á að vera að gera, það sé sterkt og öflugt eins og við ætluðumst til. (Forseti hringir.) Við þurfum að fá nýja löggjöf inn í þingið, við þurfum að fá úttektina sem okkur var lofað og (Forseti hringir.) við þurfum að fá stefnumörkunina sem við erum búin að segja að efnahags- og viðskiptaráðherra eigi að koma með.