140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:28]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að bæta við 550 milljónum í Fjármálaeftirlitið. Það er sagt að hæstv. ráðherra færi þau rök fyrir því að hér eigi að rannsaka hrunið, þetta sé til að rannsaka það. Maður heyrir utan að sér að einhverjir vilji skerða þær rannsóknir með því að vera á móti þessum fjárveitingum, en svo er ekki. Þessar 550 milljónir á að nota í tímabundið verkefni næstu þrjú, fjögur árin, verkefni sem bankasérfræðingurinn Kaarlo Jännäri hefur mælt með. Þetta eru þróunarverkefni og koma ekkert við rannsókn á fjármálakerfinu. Ef fjármálaeftirlitið í Bandaríkjunum væri sambærilegt því íslenska væru núna í kringum 117 þús. manns að vinna í fjármálaeftirliti Bandaríkjanna sem er með (Forseti hringir.) flóknasta fjármálakerfi í heimi og það væri verið að biðja um fjárveitingu til að fjölga þeim í 150 þús. Þetta er tómt rugl.