140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þingmenn Framsóknarflokksins sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu vegna þess að við teljum ekki rétt að bæta inn á þennan lista eins og staðan er í dag og þá skiptir engu máli hver það er. 2010–2011 var ákveðið að halda þessum tveimur sætum sem voru laus, ef má orða það þannig, og nú er þá væntanlega eitt sæti laust. Ég held hins vegar, frú forseti, að þetta megi ekki og eigi ekki að snúast um persónur fólks eða neitt slíkt, þetta á að snúast um það sem menn hafa fram að færa. Hins vegar eru reglur um þetta ekki nógu ljósar og þess vegna studdum við að þær yrðu endurskoðaðar en vildum jafnframt bíða með að bæta á listann þangað til því væri lokið. Við höfum líka rökstutt það þannig að ekki sé rétt að fara þessa leið meðan við reynum að gæta aðhalds í ríkisfjármálum.