140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:42]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Fjárlaganefnd skilaði þinginu skýrslu fyrr í haust þar sem fram kemur samhljóða álit nefndarinnar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning ársins 2009. Fjárlaganefnd viðraði þar ýmsar hugmyndir um úrbætur í ríkisfjármálum, betra vinnulag og betra eftirlit fjárlaganefndar og Alþingis á meðferð fjármuna ríkisins. Þessi tillaga er þaðan sprottin.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd lögðu fram við 2. umr. fjárlaga í síðustu viku tillögu efnislega samhljóða þeirri sem hér er og á henni byggist þessi tillaga. Fjárlaganefnd stendur öll og sameinuð að þessari tillögu sem ég tel mjög mikilvægt því að hér er um úrbótamál að ræða sem við erum öll sammála um að þurfi að fara í ásamt fleiru sem fjárlaganefnd mun vonandi koma með inn í þing á næstu missirum.