140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:45]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir er afrakstur samstarfs fjárlaganefndar sem hefur staðið í nokkurn tíma. Þó að við höfum þurft að snikka þetta eitthvað til í meðförum nefndarinnar til að ná samstöðu um það er tillagan engu að síður vottur um að vilji manna stendur til að bæta það verklag sem tíðkað hefur verið. Þarna er gerð tillaga um að takmarka heimildir fjármálaráðherra hvers tíma til að valsa um 6. greinar heimildina og síðan fær þingið þetta í fangið löngu síðar og hefur engin tækifæri til að kynna sér hvað þar er í gangi.

Ég legg áherslu á að sú tillaga sem hér er lögð fram, og verður væntanlega samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, er einungis fyrsta skrefið í þá átt að eyða sem mestu út af heimildargreinunum í 6. gr. fjárlaga. Í mínum huga eru (Forseti hringir.) þær einfaldlega enn allt of víðtækar og það ber að vinna málin þannig að þær takmarkist enn frekar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)