140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þau fjárlög sem við erum að greiða atkvæði um eftir breytingar gefa því miður enga von um bjartari tíma. Við förum inn í þetta síðasta heila ár kjörtímabilsins með það upplegg að áfram verði halli á ríkissjóði. Þetta gerist vegna þess að það hefur mistekist að koma atvinnulífinu aftur í gang og það hefur mistekist að laða fram fjárfestingu vegna þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að hækka sífellt skatta og gjöld. Það er enn verið að hækka skatta í þessu frumvarpi. Það er verið að framlengja tímabundna skatta og hækka þá, bæði á fjölskyldur og fyrirtæki. Þess vegna eru hagvaxtarhorfur fyrir næsta ár svona miklu lakari en að var stefnt og miklu lakari en ásættanlegt er fyrir fjölskyldur og fyrirtæki í landinu.

Nýjar tölur um hagvöxt fyrir yfirstandandi ár gefa því miður ekki von um að það sé bjart fram undan því að þær byggjast á einkaneyslu, einkaneyslu sem hæstv. fjármálaráðherra gagnrýndi á sínum tíma sem ósjálfbæran grundvöll fyrir hagvextinum í landinu. (Forseti hringir.) Þannig er það því miður á þessu ári. Þessi fjárlög sem við afgreiðum nú gefa ekki þá von sem við þurftum á að halda. Þau eru birtingarmynd stefnu ríkisstjórnar (Forseti hringir.) sem ætlar að fara í gegnum erfiðleikana með nýjum sköttum og áframhaldandi niðurskurði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)