140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:51]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þau fjárlög sem nú er verið að samþykkja snúast um fólkið í landinu. Og það finnur ekki fyrir þeim meinta árangri sem þessi ríkisstjórn á að hafa náð. Staðan er einfaldlega þannig að það er ekki verið að vernda þá sem minnst mega sín í þessu samfélagi okkar og það er verið að gjörbreyta og bylta heilbrigðiskerfi þjóðarinnar sem var nokkuð sem við Íslendingar gátum svo sannarlega státað okkur af. Hver er svo árangur ríkissjóðs þegar risaliðum, eins og með sparisjóðina, tugum milljarða, er haldið fyrir utan ríkisreikninginn? Við höfum því miður séð annars staðar hjá einstöku sveitarfélögum í löndum þar sem rétt mynd hefur ekki verið gefin af fjárlögum hvers árs hvernig hefur farið. Ekkert þeirra markmiða sem ríkisstjórnin setti sér árið 2009 hefur náð fram að ganga og þessi fjárlög (Forseti hringir.) eru því alls kostar á ábyrgð þessarar fyrstu hreinu vinstri stjórnar sem nú situr (Forseti hringir.) við völd.