140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætlaði að eiga orðastað við hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur en ég sé að það eru aðrir stjórnarþingmenn í salnum sem ég trúi ekki öðru en að hafi bæði vit á jafnréttismálum og ekki síður metnað til að halda á þeim í þeirri baráttu og umræðu sem þörf er á. Það er sannarlega þörf á því, við fáum hverja könnunina á fætur annarri um að launabil milli kynjanna sé að aukast. Við vitum um þá skelfilegu könnun sem sýnir fram á að konur innan opinbera geirans séu að verða með verulega lægri laun en karlmennirnir hjá hinu opinbera. Í gær var kynnt könnun á vegum Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga þar sem þetta kemur mjög skýrlega fram, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Athygli vekur að í fyrsta sinn lækka laun kvenna. Lækkunin nemur 1,9% […] Þegar ekki er tekið tillit til annarra þátta mælast því karlar með 19% hærri laun en konur.“

Ég held að við hljótum að tala um það hér hvað er búið að gera í ákveðnum þáttum sem tengjast jafnréttismálum og jafnréttisbaráttunni til lengri tíma. Ég er að sjálfsögðu með fæðingarorlofið í huga. Það er búið að skerða það, ekki bara einu sinni og ekki bara tvisvar heldur þrisvar sinnum, og við horfum upp á það að karlar eru hættir að taka fæðingarorlof, og það er ekki rétt sem kom fram hjá hæstv. velferðarráðherra í gær að karlar séu það ekki. Það er þannig, karlar eru hættir að taka fæðingarorlof, þeir eru úti á vinnumarkaðnum en ekki konur sem hafa sömu tækifæri. Þetta þýðir að samkeppnisstaða kvenna í launabaráttu versnar, bæði á hinum opinbera markaði sem og hinum almenna. Það hlýtur að vera stjórnarþingmönnum áhyggjuefni að menn taki ekki fastar á þessu, og hæstv. forsætisráðherra getur ekki talað eins og hún talaði í gær, eins og hún væri bara álitsgjafi úti í bæ, eins og hún væri bara einhver manneskja úti í bæ sem hefði engin áhrif á þróun mála. Þetta er alvarlegt og á þessu verða ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir að taka miklu fastar með okkur í stjórnarandstöðunni.