140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason velti fyrir sér ástæðum þess að við, allmargir þingmenn, kusum að sitja hjá við tiltekna atkvæðagreiðslu í gær sem hv. þingmaður nefndi. Ég vil í því sambandi bara segja þetta: Það var engin pólitísk meinbægni á bak við þá afstöðu okkar. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir gerði málefnalega grein fyrir afstöðu okkar og vísa ég í það sem hv. þingmaður sagði í þeim efnum. Það var fullkomlega málefnalegt og hafði ekkert með efnisatriði þessa máls að gera að öðru leyti en því sem hún gerði grein fyrir.

Út af því sem við ræddum áðan varðandi heilbrigðismálin vekur það athygli að meiri hluti hv. fjárlaganefndar kaus að ljúka því máli með því að skilja eftir 77 millj. kr. pott sem ætlunin er að dreifa úr til verðugra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Maður hlýtur að kalla eftir því hvernig unnið verði að því að dreifa þeim fjármunum. Ég útiloka ekki að stundum þurfi að hafa slíka potta en ástæðan fyrir því að það er gert svona er sú sem hæstv. velferðarráðherra lýsti í gær. Hann sagði: Við höfum engar faglegar forsendur fyrir þessu, sem segir okkur að þær faglegu forsendur sem hefðu átt að liggja að baki hugmyndum um niðurskurð — ekki hagræðingu heldur niðurskurð — á þessum heilbrigðisstofnunum eru ekki til staðar. Það eru ekki einu sinni til faglegar forsendur fyrir því að ákveða úthlutun upp á 77 millj. kr. Þá veltir maður fyrir sér: Hvernig er þessi töfratala, 77 millj. kr., fundin? Af hverju ekki 76? Af hverju ekki 78? Það virðist vera einhver ágiskun út í loftið. Það eru ekki málefnaleg vinnubrögð.

Ég vil hins vegar fagna undirtektum hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur í ræðu hennar áðan. Hún tók undir ýmislegt af því sem ég benti á og mér fundust það vera heiðarleg og málefnaleg viðbrögð að öllu leyti af hennar hálfu.

Kjarni málsins er þessi: (Forseti hringir.) Ekki var unnið faglega að þessum niðurskurði og þess vegna eru menn lentir í ógöngum, þess vegna stilla menn heilbrigðisstofnun eins og í Skagafirði upp þannig að hún þurfi að grípa til hæpinna (Forseti hringir.) og ófærra niðurskurðaraðgerða að mati velferðarráðuneytisins sjálfs.