140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka upp mál sem minnst er á á forsíðu Fréttablaðsins í dag og hefur verið nokkuð í umræðunni undanfarið, það er mislingafaraldurinn sem geisað hefur í Evrópu undanfarin þrjú ár og hefur verið að sækja í sig veðrið. Þetta er barnasjúkdómur sem hefur mjög alvarlegar aukaverkanir og hefur nú þegar leitt fjölda barna til dauða í Evrópu. Ég get tekið undir orð sóttvarnalæknis um að það sé lýðheilsulegt hneyksli að það skuli koma upp á þessum tímum.

Þar sem við vorum að afgreiða í gær fjárlögin fyrir næsta ár vil ég líka minna á hversu mikilvægt það er að við tryggjum fjárframlög til innkaupa á bóluefni, sama hvort það eru þau bóluefni sem gefin eru í ungbarnaeftirliti eða önnur þau bóluefni sem mælt er með og eru viðurkenndar ónæmisaðgerðir, hvort sem um heimsfaraldur er að ræða eða, eins og tekið var upp á þessu ári, bóluefni gegn leghálskrabbameini sem nú er farið að gefa 12 ára stúlkum. Það tel ég mikilvægt og eins að foreldrar geri sér fulla grein fyrir því hvað það er mikilvægt að fylgja ráðleggingum og láta bólusetja börn sín með viðurkenndum ónæmisaðgerðum. Það eru engar bólusetningar stundaðar hér nema ónæmisaðgerðir sem eru vísindalega sannaðar og viðurkenndar því að það þarf ákveðinn íbúafjölda hverrar þjóðar, þ.e. yfir 90%, til að (Forseti hringir.) ná hjarðónæmi, sem er mikilvægt til að faraldurinn blossi ekki upp.