140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

virðisaukaskattur.

317. mál
[11:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt. Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um virðisaukaskatt og má segja að þær séu í meginatriðum þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að þeim tegundum listaverka sem falla undir undanþágu 2. töluliðar 4. gr. laganna verði fjölgað, í öðru lagi eru lagðar til orðalags- og efnisbreytingar á 25. gr. laganna sem fjallar meðal annars um eftirlit ríkisskattstjóra með virðisaukaskattsskilum, og loks er í þriðja lagi lagt til að framlengdur verði gildistími á þremur bráðabirgðaákvæðum.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að þeim tegundum listaverka sem falla undir undanþáguákvæði 2. töluliðar 4. gr. laganna verði fjölgað nokkuð frá því sem nú er. Samkvæmt gildandi lögum eru listamenn undanþegnir virðisaukaskattsskyldu að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum sem falla undir ákveðin tilgreind tollskrárnúmer. Uppboðshaldarar eru einnig undanþegnir virðisaukaskatti vegna sölu á sömu verkum. Listaverkin sem nú falla undir ákvæðið eru meðal annars málverk, teikningar og pastelmyndir, frumverk af stungum, þrykki og steinprenti og frumverk af höggmyndum og myndastyttum úr hvers konar efni.

Við samningu þessa frumvarps var horft til þess að Bandalag íslenskra listamanna hefur um nokkurt skeið viljað rýmka undanþágu ákvæðisins og bent á að fleiri listaverk falli undir undanþágu dönsku virðisaukaskattslaganna. Með hliðsjón af þessu voru ákvæði dönsku laganna borin saman við íslenska ákvæðið. Dönsku lögin eru byggð á virðisaukaskattstilskipun Evrópusambandsins og því var einnig farið yfir ákvæði hennar við vinnslu frumvarpsins. Eftir þá skoðun var talið rétt að leggja til að þeim tegundum listaverka sem falla undir ákvæði íslensku virðisaukaskattslaganna verði fjölgað svo ákvæðið nái til sömu listaverka og falla undir undanþágu dönsku laganna. Ekki var talið rétt að ganga lengra en gert er í dönsku virðisaukaskattslögunum, m.a. með hliðsjón af því að undanþágur sem þessar geta verið flóknar í framkvæmd.

Í frumvarpinu er því lagt til að ferns konar listaverk til viðbótar verði felld undir undanþáguna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Um er að ræða handgerð veggteppi og veggvefnaðarvöru, einstök verk úr leir, handgerð verk úr glerjuðum kopar og ljósmyndir.

Lagt er til að óbreytt verði að undanþágan taki eingöngu til sölu listamanna og uppboðshaldara á þessum verkum. Grundvallarregla ákvæðisins um að þau listaverk sem falla undir undanþáguna skuli eingöngu hafa listrænt gildi en ekki nytjagildi helst einnig óbreytt. Hvers kyns nytjahlutir, þótt handunnir séu, munu þannig eftir sem áður ekki falla undir undanþáguna. Í dæmaskyni má nefna að fatnaður, handtöskur, skartgripir, hárskraut, leikföng, skálar, kertastjakar, blómavasar, rúmteppi og gólfteppi geta ekki fallið undir ákvæðið eins og það er orðað í frumvarpinu.

Rétt er að taka fram að nokkur efnisatriði dönsku laganna um sölu listamanna á eigin verkum verða áfram frábrugðin þeim íslensku verði frumvarpið að lögum. Til dæmis er ákveðið fjárhæðarþak á undanþeginni sölu listamanna í Danmörku, en á Íslandi er öll sala samkvæmt ákvæðinu undanþegin virðisaukaskatti.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að nýju ákvæði verði bætt við lög um virðisaukaskatt. Ákvæðið verði þess efnis að þegar vafi leikur á tollflokkun listaverks geti þeir sem hagsmuna eiga að gæta óskað eftir ákvörðun tollstjóra um tollflokkun. Þeirri ákvörðun megi svo skjóta til ríkistollanefndar. Þá er lagt til að ákvörðun tollyfivalda verði bindandi fyrir bæði þann sem óskaði eftir henni og ríkisskattstjóra.

Í 3. gr. frumvarpsins eru þær breytingar lagðar til á 25. gr. laga um virðisaukaskatt að felld verði brott skylda ríkisskattstjóra til að skoða sérstaklega allar inneignarskýrslur. Þess í stað verði það lagt í hendur ríkisskattstjóra að meta hvaða inneignarskýrslur þarfnist sérstaklega skoðunar út frá hlutlægum mælikvörðum. Með þessari breytingartillögu er ekki verið að leggja til að dregið verði úr eftirliti ríkisskattstjóra á inneignarskýrslum í virðisaukaskatti, heldur að eftirlitið verði gert markvissara og áhættumiðaðra. Þá er lagt til að orðalag 25. gr. laganna verði fært í það horf sem samræmist verkaskiptingu milli skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra, Þannig verði hugtakið að ,,rannsaka“ ekki notað í 2. mgr. ákvæðisins sem fjallar um eftirlit ríkisskattstjóra.

Loks er lagt til að gildistími þriggja bráðabirgðaákvæða í lögum um virðisaukaskatt verði framlengdur um eitt ár. Í fyrsta lagi er um að ræða heimild til að endurgreiða 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem fellur til vegna kaupa eða leigu á hópferðabifreiðum og almenningsvögnum. Heimildin nær til þeirra sem hafa leyfi til fólksflutninga í atvinnuskyni og gildir um hópferðabifreiðar sem aðallega eru ætlaðar til fólksflutninga og eru skráðar fyrir 18 manns eða fleiri. Áfram er lagt til að endurgreiðslan sé háð því skilyrði að bifreiðarnar séu búnar aflvél með EURO5-mengunarstaðli enda er tilgangur ákvæðisins sá að stuðla að yngri og umhverfisvænni bílaflota í greininni.

Í öðru lagi eru um að ræða heimild til endurgreiðslu eða niðurfellingar virðisaukaskatts af vetnisbílum sem fluttir eru inn í rannsóknarskyni og hafa í för með sér hverfandi mengun. Heimildin nær einnig til sérhæfðra varahluta í sömu bifreiðar.

Í þriðja lagi er um að ræða 100% endurgreiðslu þess virðisaukaskatts sem byggjendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafa greitt vegna vinnu manna á byggingarstað og vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald húsnæðisins. Sama heimild nær til byggjenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis vegna þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis og vegna þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis. Heimildin nær einnig til húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga.

Sú ákvörðun að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts við þessar aðstæður úr 60% af vinnu á byggingarstað í 100% er talin hafa ýtt undir framkvæmdir við endurbætur á húsnæði og dregið þannig úr atvinnuleysi iðnaðarmanna. Til fróðleiks má geta þess að hækkunin tók gildi frá og með 1. mars 2009 og hefur hún því verið í gildi í tæp þrjú ár nú þegar. Ef rýnt er í tölur um þessar endurgreiðslur má sjá að endurgreiddur virðisaukaskattur á árinu 2010 er tvöfalt hærri en hann var á árinu 2008. Endurgreiðslurnar á síðasta ári námu rúmlega 2 milljörðum kr. en þær voru ríflega 1 milljarður árið 2008.

Að lokum vil ég nefna að til stóð að í frumvarpinu yrði einnig lögð til breyting varðandi virðisaukaskatt og aðgangseyri að íslenskum kvikmyndum. Í samkomulagi stjórnvalda við samtök kvikmyndagerðarfólks sem undirritað verður nú á næstunni, jafnvel í dag, er kveðið á um að undanþága frá greiðslu virðisaukaskatts af sölu aðgöngumiða á sýningar á íslenskum kvikmyndum verði afnumin. Mun sú breyting leiða af sér einfaldari framkvæmd virðisaukaskattslaganna fyrir alla hlutaðeigendur, kvikmyndahús og skattyfirvöld. Samkomulagið gerir ráð fyrir að stuðningur við kvikmyndaframleiðslu verði aukinn á öðrum sviðum í stað undanþágunnar.

Ég vil því leyfa mér að beina þeim tilmælum til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að hún taki til skoðunar að leggja til þá breytingu á lögum um virðisaukaskatt að aðgangseyrir að íslenskum kvikmyndum verði framvegis ekki undanþeginn virðisaukaskatti eins og nú er. Um einfalda breytingu á 4. tölulið 3. mgr. 2. gr. laganna er að ræða, að sjálfsögðu í trausti þess að samkomulagið sem hér var vitnað til verði staðfest og undirritað.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.