140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

virðisaukaskattur.

317. mál
[11:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að ræða við hæstv. fjármálaráðherra um þessa undanþágu frá virðisaukaskatti af vinnu á byggingarstað eða vinnustað. Þetta hefur borið ágætan árangur þar sem það virðist aukast jafnt og þétt, um 20–50% á ári, og er það jákvætt. Það veltir hins vegar upp þeirri spurningu hvort það sé sniðugt að skattleggja fyrst allt undir drep og gefa svo afslátt til að fá menn til að vinna því að fjárfesting er mjög lítil. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hugi að því að aflétta öðrum sköttum svona stíft til að örva fjárfestingu sem er allt of lítil.

Svo var ég dálítið undrandi þegar ég heyrði hæstv. ráðherra segja að tilkynntar hefðu verið enn einar breytingarnar á virðisaukaskattinum. Þær eru nú orðnar ansi margar og búa til heilmikið óöryggi í atvinnulífinu. Nú á sem sagt að fella niður — er ég ekki í andsvari?

(Forseti (ÁRJ): Jú, andsvari.)

Ég á 13 mínútur eftir samkvæmt klukkunni.

Þá vil ég spyrja hvort tilkynningin um að innlendar kvikmyndir séu undanþegnar virðisaukaskatti standist EES-samninginn og jafnræði milli innlendra og erlendra kvikmynda þegar sú leið er farin. Er ekki undarlegt að ráðherrann gefi hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég á ekki sæti í, skipun um að breyta frumvarpinu?