140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

virðisaukaskattur.

317. mál
[11:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrri spurninguna erum við náttúrlega að ræða um starfsemi sem er virðisaukaskattsskyld fyrir útselda þjónustu af þessu tagi. Endurgreiðsla hvað varðar íbúðarhúsnæði sérstaklega hefur alllengi verið við lýði. Hún var reyndar miklu þrengra skilgreind áður og eingöngu 60% endurgreidd vegna vinnu manna á byggingarstað þegar um var að ræða viðhald og endurbætur á íbúðarhúsnæði. Þá var gripið til þess ráðs, eins og ég fór yfir í framsögu minni, á útmánuðum 2009 að hækka þetta hlutfall í 100% og jafnframt víkka aðeins út undanþáguna til að hún tæki til sumarhúsa eða frístundahúsa og fasteigna sem alfarið væru í eigu sveitarfélaga. Það var mjög meðvituð ákvörðun til að virkja fleiri á þessu sviði og reyna að auka umsvif á þessum erfiða tíma í byggingariðnaðinum sem við vorum þá og erum svo sem að sumu leyti enn að ganga í gegnum.

Síðan hefur þessu verið fylgt eftir með kynningarherferð á átakinu Allir vinna sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki. Um tíma var til viðbótar þessu hvatt til þessa enn frekar með ákveðinni ívilnun í gegnum tekjuskattskerfið. Hún er núna að hverfa út en við viðhöldum áfram 100% endurgreiðslu og ég held að það sé skynsamleg ráðstöfun, a.m.k. þangað til betur er farið að ára í byggingariðnaðinum.

Auðvitað má velta fyrir sér hvort ná mætti hliðstæðum árangri með slíkum hvetjandi endurgreiðsluaðferðum víðar. Það hefur svo sem verið skoðað. Má nefna svona vissa hluti bílgreinarinnar o.s.frv. Menn eru kannski farnir að hugsa meira um aðra þætti en bara að auka umsvif, eins og að berjast með slíkum aðferðum gegn svartri atvinnustarfsemi.

Varðandi kvikmyndagerðarundanþáguna held ég að það sé gott að ná samkomulagi og styðja frekar innlenda kvikmyndagerð með beinum hætti í gegnum sjóði eða önnur slík tæki, en ekki að vera með þessa sértæku undanþágu hvað varðar virðisaukaskatt af aðgangseyrinum.