140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[11:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þingmaður höfum oft átt orðaskipti um þetta áður og við þekkjum þessa stöðu mætavel. Því miður er það svo að heildarskuldbindingar A-deildar LSR hafa verið umfram eignir á hverju einasta ári síðan árið 2000, mismikið þó. Ástandi snarversnaði auðvitað á árinu 2008 eftir að staðan hafði verið nokkuð góð á árunum 2004, 2005 og sérstaklega á árinu 2006. Síðan 2008 hefur þarna verið á allnokkur halli eins og reyndar hjá fjölmörgum öðrum lífeyrissjóðum. Því var gripið til þess sem ég fór yfir í framsögu minni, að heimila tímabundið frávik frá 10% reglunni. Það eru enn gildar ástæður fyrir að gera það meðal annars vegna óvissu núna um eignasafn lífeyrissjóðanna erlendis sem getur tekið breytingum, bæði vegna breytinga á gengi og/eða á mörkuðum þar. Ýmiss konar óvissa er uppi í þeim efnum tímabundið en við hljótum að vona að sú staða lagist á nýjan leik.

Þetta breytir í grundvallaratriðum ekki þeirri stöðu sem við þekkjum að ríkisábyrgðin er á bak við opinbera lífeyrissjóðakerfið og ábyrgð sveitarfélaga á lífeyrissjóðum sveitarfélaga. Viðræður eru í gangi á mismunandi stöðum, annars vegar um heildarfyrirkomulag lífeyrismálanna og stóru framtíðarmyndina í þeim efnum hvað varðar það að stefna að einu samræmdu lífeyrissjóðskerfi í landinu með jafnri og sjálfbærri réttindaávinnslu, og sömuleiðis eru í gangi viðræður um framtíð opinberu sjóðanna sérstaklega og hvernig reynt verður að ná tökum á hallanum á A-deildinni og rétta hann af annars vegar og hins vegar að setja upp greiðsluáætlun fyrir framtíðarskuldbindingar innan B-deildar.

Vonandi kemur niðurstaða af þessu starfi á næstu mánuðum. Það er gríðarlega mikilvægt (Forseti hringir.) að sæmileg sátt takist um hvernig tekist verður á við þetta til framtíðar en á meðan búum við við þetta tímabundna ástand sem hér er búið til.