140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[11:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni um hvort ekki væri örugglega rétt hjá mér að sjóðfélagar almennu sjóðanna mundu bera allar þessar byrðar, í fyrsta lagi í formi þess að lífeyrisréttindi þeirra verða skert, af því að allar þessar fjórar aðgerðir sem verið er að leggja á þá, vegna umboðsmanns skuldara, Fjármálaeftirlitsins, sérstaks iðgjalds VIRK og svo eignarskatturinn, minnka og skerða eignir allra lífeyrissjóðanna. Í öðru lagi eru eignir opinberu sjóðanna bornar upp af atvinnurekendum, þ.e. ríkinu og sveitarfélögum, og það þýðir þá skatta á hina líka. Því var ekki svarað hvort menn hefðu gert sér grein fyrir þessu og hvort ekki væri miklu betra að leggja þetta hreinlega sem skatt á alla Íslendinga en ekki bara á þá í almennu sjóðunum, iðnaðarmenn, verkamenn og bændur og aðra slíka.

Hæstv. ráðherra sagði að þetta væri að sjálfsögðu ekki ætlað til framtíðar. Hversu oft höfum við ekki heyrt svoleiðis söng? Ég minni á að í fjárlagafrumvarpinu sem við samþykktum í gær er gert ráð fyrir auðlegðarskatti, jafnvel þó að hann eigi að renna út um áramótin. Af hverju skyldi það vera gert? Það voru heitstrengingar um að hann ætti bara að gilda í þrjú ár en hvað gerist? Hann er framlengdur um þrjú ár í viðbót. Hvað á maður að halda um lífeyrissjóðina? Verður þetta bara ekki framlengt áfram eins og margir aðrir skattar?

Þegar menn eru komnir í eignir lífeyrissjóðanna, þegar ríkisvaldið fer að ráðast á eignir lífeyrissjóðanna, er bitinn sætur. Ég skil ekki af hverju stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur ekki hækkað iðgjaldið nú þegar samkvæmt 4. mgr. 13. gr. laga um lífeyrissjóðinn.