140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[12:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það sem við erum að ræða er í grunninn það fyrirkomulag sem komst á með lögum um lífeyrissjóði 1997. Hv. þingmaður hefur verið á þingi og tilheyrt stjórnarmeirihluta lengstan hluta þess tíma sem síðan er liðinn. (PHB: Ég ber ekki ábyrgð á því. Ég var ekki í ríkisstjórn.) Það hafa ekki verið og eru ekki auðveldustu aðstæður nú til að takast á við þessa hluti. Þær voru hins vegar betri á veltiárunum fyrir hrunið og þá hefði gjarnan mátt greiða myndarlega inn á þessar framtíðarskuldbindingar og rétta til dæmis af hallann á A-deild LSR. (Gripið fram í.) Það var nú ekki ríkulegt. Lagt var sæmilega af stað með inngreiðslur á árunum upp úr aldamótum, síðan drógust þær greiðslur niður og voru smánarlega litlar einmitt þau ár þegar mestur afgangur var á ríkissjóði 2004, 2005, 2006 og 2007.

Ég vil minna hv. þm. Pétur Blöndal á, þegar hann talar eins og hann gerir hér, að opinberir starfsmenn greiða líka skatta. Það er hárrétt að það er þaðan sem við þurfum að taka fjármuni eftir því sem niðurstaðan verður að rétta þetta af með greiðslum úr ríkissjóði. Varðandi A-deildina á hún hins vegar að vera sjálfbær og verið er að ræða við viðkomandi aðila með hvaða ráðstöfunum þar sem menn skoða að sjálfsögðu réttindin, iðgjaldagreiðslur og aðra tengda þætti. Við náum fram samkomulagi um að rétta hana af þannig að hún spjari sig sjálf. Það er meira en nóg að hugsa til þess til frambúðar að ríkisins bíður að takast á við uppsafnaðar framtíðarskuldbindingar í B-deild. En hv. þingmaður mætti hafa í huga þegar hann ræðir þessi mál við þann sem hér stendur að það var ekki ég sem bjó til með lögum það fyrirkomulag sem við erum enn að glíma við. Þá sátu aðrir við völd.