140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[12:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Stjórn LSR hefur að sjálfsögðu farið að lögum og það hefur verið sameiginlegur skilningur bæði stjórnar LSR og fjármálaráðuneytisins sem fer með lífeyrismál að sú bráðabirgðaundanþága frá 10% reglunni sem veitt var með lögum 2008 gilti líka um opinberu sjóðina. En til að taka af allan vafa í þeim efnum, eftir að það sjónarmið kom fram að það væri ekki ótvírætt, liggur núna fyrir frumvarp í fjárlaganefnd til að taka á því og skapa öruggt tímabundið skjól fyrir stjórnina og aðstandendur sjóðsins til að þurfa ekki að hækka iðgjöld. Ég legg svo áherslu á það sem ég hef áður sagt um mikilvægi þess að ná utan um þessi mál.

Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir málefnalegan og góðan málflutning. Ég er honum sammála um að það eru góð og gild rök fyrir þátttöku lífeyrissjóðanna, m.a. í starfsendurhæfingarsjóðnum. Það er mikilvægt hagsmunamál að vinna þannig gegn örorku og reyna að endurhæfa fólk. Ég tel að það kerfi virki þegar með ágætum og hið sama gildir um þátttöku lífeyrissjóðanna í skuldaleiðréttingaaðgerðum og vaxtaniðurgreiðslum.

Það er líka hárrétt sem hv. þingmaður segir um að hann hafi haldið uppi málflutningi um að taka þyrfti á þeim vanda sem þarna gæti annars myndast til framtíðar litið allt frá því að lög um lífeyrissjóði voru sett 1997. Við hv. þingmaður höfum reyndar oft á umliðnum árum átt um þetta orðastað og höfum ekki verið ósammála um þann þátt málsins að á þessu þurfi að taka. Það er eitt af stóru viðfangsefnunum í heildarframtíðarfyrirkomulagi lífeyrissjóðakerfisins í landinu.