140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

Byggðastofnun.

302. mál
[12:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Það upplýsti mig dálítið í því sem ég var að velta fyrir mér, þetta með hvaða hætti hægt væri að stofna til þessara kæra. Nú hefur hæstv. ráðherra svarað því skýrt, ef ég skildi rétt, að áfram verði hægt að kæra til dæmis málsmeðferð, þó þannig að ráðuneytið þyrfti í sjálfu sér ekki að taka afstöðu efnislega til einhverra tiltekinna lánagjörninga. Mér finnst út af fyrir sig jákvætt og ágætt að menn geti þá leitað réttar síns.

Annað atriði sem vakti líka athygli mína var það sem hæstv. ráðherra sagði, að það væri að vísu bara ein kæra núna fyrir ráðuneytinu. Það kom svo sem ekki fram hvort það væri vegna þess að þeir sem kærðu teldu að á sér hefði verið brotið vegna málsmeðferðarinnar eða hvort þeir hefðu talið á sér brotið með einhverjum öðrum hætti. Það er mál milli stofnunarinnar og ráðuneytisins. Það sem vakti hins vegar athygli mína var það sem hæstv. ráðherra bætti við um að það væru vísbendingar um aukningu á slíkum kærum. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti eitthvað upplýst okkur um það frekar.

Þá vil ég spyrja: Kann ekki að vera að við þurfum að íhuga af hverju það er ef það eru vísbendingar um aukningu, hvort þá sé einhver þörf á því að slíkt kæruferli sé til staðar? Hæstv. ráðherra sagði að vísu að kæruferlið sem lyti að málsmeðferðinni væri áfram til staðar en mér finnst að ef það eru einhverjar vísbendingar um aukningu sem eru þá kannski vísbendingar um einhverja breytingu þurfi þingnefndin sem fær þetta mál til meðferðar að velta fyrir sér hvort þar sé eitthvað sem þurfi sérstaklega að hyggja að.