140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[13:56]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni að því leyti að hér er auðvitað um fjárhagslega ábyrgð að ræða en líkurnar á að reyni á hana eru ekki miklar. Eins og ég rakti hins vegar í máli mínu er það ekki útilokað ef traustar varúðarreglur — sem reyndar eru betri og hafa sýnt betri árangur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en þær sýndu kannski við mat á útlánagæðum íslenskra banka fyrir hrun — duga ekki til og ef varasjóðir duga ekki til og gullforðinn reynir auðvitað í réttu hlutfalli á ábyrgðir eigenda. Við erum eigendur að 0,066%, minnir mig að það sé, ég er ekki með pappírinn fyrir framan mig, af sjóðnum og berum ábyrgð í samræmi við það.

Það er mjög ólíklegt að allt þetta framlag tapist, af því að ef það tapast allt er heimshagkerfið komið á vonarvöl og þá er ólíklegt að við höfum mikið við peninga að gera hvort heldur er eða þeir hafi mikla þýðingu. Framlag okkar er auðvitað ábyrgðaryfirlýsing sem stendur að baki sjóðnum og er eðlilegur hluti af þátttöku okkar í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi og leiðir af því að við erum þátttakendur í frjálsu og opnu viðskiptaumhverfi og viljum vera það til frambúðar.